Nýr sæstrengur tilbúinn á næsta ári

Strengurinn mun liggja frá Long island í Bandaríkjunum til Írlands, …
Strengurinn mun liggja frá Long island í Bandaríkjunum til Írlands, en tengjast við Ísland á leiðinni.

Í morgun tilkynnti Vodafone Kauphöllinni um að félagið væri búið að semja um afnot af gagnaflutningsstreng sem alþjóðlega fyrirtækið Emerald Networks ráðgerir að leggja til Íslands. Undirbúningur fyrir lagningu strengsins hefur staðið yfir í nokkur ár, en hún mun hefjast í sumar og gert er ráð fyrir að strengurinn verði tekinn í gagnið næstkomandi haust. Þetta segir Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule investments, en hann situr meðal annars í stjórn Emerald og kemur að verkefninu fyrir hönd Thule investments.

Rannsóknir og leyfi frágengin

„Það hefur verið okkur meginmarkmið að tryggja að Ísland verði með í fyrsta fasanum og að það séu engar efasemdir með það“ segir Gísli. Hann segir að í öllum samningum sem félagið hafi gert sé tekið fram að Ísland sé í fyrsta fasa, en það er lagningin frá Long island í Bandaríkjunum til Írlands, með tengingu við Ísland.

Nú þegar hefur forhönnun farið fram og botnrannsóknir verið gerðar. Þá hafa öll tilskilin leyfi fengist að sögn Gísla. Strengurinn mun koma upp í Grindavík, en það gefur meðal annars kost á góðum tengingum á suðvestur horni landsins þar sem Emerald hyggst koma upp ljósleiðarakerfi.

Risastór fjárfestingasjóður á bakvið verkefnið

Gísli segir að verkefnið eigi sér langan aðdraganda, en boltinn hafi byrjað að rúlla fyrir alvöru árið 2011. „Stóru hlutirnir byrja að gerast um mitt árið 2011 þegar breska fjárfestingafélagið Wellcome Trust kemur inn í verkefnið. Þeir eiga í dag stærsta eignarhlutinn, eða tæplega 49%“. Wellcome Trust er nærst stærsti fjárfestingasjóður í heimi sem er í einkaeigu, á eftir sjóði Bill og Melindu Gates. 

Heildarfjárfesting við verkefnið er yfir 320 milljón Bandaríkjadollarar, eða tæpir 42 milljarðar íslenskra króna, að sögn Gísla. Fyrsti fasinn kostar um 280 milljón dollara, en annar fasinn um 48 milljón dollara. Aðrir fjárfestar eru helst þeir sem hafa komið beint að verkefninu og tengdir aðilar þeim segir Gísli.

Fjármögnun á verkefninu er ekki lokið, en Gísli segir að Bandaríski Exim bankinn hafi gefið vilyrði fyrir 140 milljón dollara fjármagni fyrir fyrsta fasa lagningarinnar, eða helming þess sem þarf. Þá sé búið að safna um 7 milljón dollara frá fjárfestum og hann gerir ráð fyrir að það muni aukast mikið á næstunni. Segir hann að fjármögnun Exim bankans sé mikil gæðavottun, enda hafi þar verið farið í mikla skoðun á verkefninu og miklar kröfur gerðar um arðsemi. 

Íslendingar leggi til um 10%

Gísli gerir ráð fyrir að íslenskir fjárfestar muni að lokum leggja til um 10% af heildarhlutafé í verkefnið, en hann telur að þátttaka Íslendinga hafi verið mun veigameiri en það hlutfall gefi til kynna. „Við höfum verið að taka þátt í þessu verkefni og haft aðkomu langt umfram okkar fjárfestingu sem sem stafar meðal annars af því að þetta er gríðarlega mikilvægt verkefni fyrir Ísland.“

Thule Investments er nú þegar með tvo fjárfestingasjóði í rekstri, en Gísli segir að settur verði upp alveg sér sjóður fyrir þetta verkefni. Hann segir 3,5 milljarða verða mikinn pening í sjálfu sér, en að á sama tíma sé þetta lítil fjárfesting miðað við að fá nýjan streng til Íslands.

Fleiri strengir skapa tækifæri

Gísli segir að gagnamagn til landsins sé í dag miklu meira en nauðsynlegt sé fyrir Íslendinga. Aftur á móti muni aukin bandvídd frá fleiri en einum streng vonandi skapa vænleg skilyrði fyrir erlend fyrirtæki til að setja upp aðstöðu hérlendis. „Há verðskrá og einokunaraðstaða Farice eru atriði sem við heyrum gagnaverseigendur setja fyrir sig í dag. Við teljum að með því að hingað komi strengur sem er í eigu sjálfstæðs aðila muni opna Ísland og gera meira spennandi fyrir þá sem vilja koma upp starfsemi.“

Það eru mikil tækifæri í þessum geira að mati Gísla, en hann segir að í dag sé aðeins lítill hluti þjóðarframleiðslunnar kominn til vegna netþjónustu eða gagnavera. Þar séu aftur á móti mikil tækifæri í framtíðinni ef rétt skilyrði skapist, til dæmis með samkeppni á þessum markaði. „Við skulum átta okkur á því að það er nægjanleg bandvídd á strengjunum sem eru fyrir hendi, þetta er meiri spurning um að fá þriðja strenginn upp á áreiðanleika. Þá er mikilvægt að hér verði samkeppni svo þeir sem vilji setja upp netþjónabú geti reitt sig á að geta keypt bandvídd á markaðslegum forsendum þegar fram í sækir“ segir Gísli.

10 terabita tenging

Nýi strengurinn verður 10 terabitar, eða um 10 þúsund gígabitar og hægt verður að auka afköstin allt að áttfalt með uppfærslum. Emerald Networks hefur samið við bandaríska fyrirtækið TE SubCom um að leggja strenginn. Félagið hefur mikla reynslu af lagningu sæstrengja og hefur þegar lagt 490 þúsund kílómetra af neðansjávarköplum sem jafngildir tólf sinnum ummáli jarðarinnar við miðbaug. 

Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule investments.
Gísli Hjálmtýsson, framkvæmdastjóri Thule investments.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK