Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur tilnefnt Bláa lónið, Icelandair group og Truenorth til Íslensku þekkingarverðlaunanna fyrir árið 2012. Yfirskrift verðlaunanna er: bættur árangur í breyttu umhverfi og við valið var haft til hliðsjónar hvernig framtíðarsýn, stefna og gildi fyrirtækisins endurspeglist í þeim árangri sem fyrirtækið hefur náð á undanförnum árum.
Það voru félagsmenn FVH og dómnefnd sem völdu fyrirtækin þrjú, en dómnefndin er skipuð valinkunnum sérfræðingum úr íslensku viðskiptalífi.
Íslensku þekkingarverðlaunin verða afhent hinn 20. febrúar í Hörpunni á Íslenska þekkingardeginum. Auk þess verða veitt verðlaun til þess viðskiptafræðings eða hagfræðings sem þykir hafa skarað fram úr á liðnu ári. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin en hann er verndari Íslenska þekkingardagsins.