Árni Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Orku hjá Mannviti frá og með 15. mars næstkomandi og tekur sæti í framkvæmdastjórn fyrirtækisins. Árni tekur við framkvæmdastjórastarfinu af Sigurði St. Arnalds sem lætur af starfinu að eigin ósk en mun áfram starfa við markaðsstörf og sem ráðgjafi Mannvits í orkumálum. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Mannvits.
Á síðustu sjö árum hefur Árni stýrt starfsemi Íslandsbanka á sviði endurnýjanlegrar orku, bæði innanlands og utan. Segir í tilkynningunni að Árni hafi mikla og fjölþætta reynslu af alþjóðlegum viðskiptum, samningagerð, markaðssetningu og fyrirlestrum á sviði endurnýjanlegrar orku sem og af samstarfi við íslensk orkufyrirtæki og aðila í þjónustu við þau.
Hann situr í stjórn Samtaka jarðvarmafyrirtækja í Bandaríkjunum (Geothermal Energy Association – GEA) og sömuleiðis í leiðtogaráði ameríska endurnýjanlega orkuráðsins (American Council on Renewable Energy – ACORE). Þá hefur hann setið í fagráði Jarðvarmaklasans og er í stjórn Íslensk-ameríska verslunarráðsins í New York. Áður en Árni hóf störf hjá Íslandsbanka var hann alþingismaður og félagsmálaráðherra á árunum 2003-2006.