Stóru bankarnir þrír hafa á síðustu 4 árum endurgreitt viðskiptavinum sínum rúmlega 9 milljarða í formi peningagreiðslna eða lækkunar á höfuðstóli lána. Þetta er fyrir utan höfuðstólslækkanir eða aðrar breytingar sem hafa verið gerðar vegna opinberra aðgerða eða sjálfstæðra ákvarðana hvers banka fyrir sig í þeim efnum.
Landsbankinn hefur greitt hæstu upphæðina, en á hún nemur um 4,5 milljörðum. Þar af var um 4,1 milljarða endurgreiðsla í formi lækkunar á höfuðstóli lána um sumarið 2011. Þá endurgreiddi bankinn 20% af vöxtum lána, sem einstaklingar greiddu á tímabilinu frá árslokum 2008 til maímánaðar 2011. Hámarksgreiðsla á hvern og einn viðskiptavin var 1 milljón.
Um 350 milljónir komu til vegna 50% endurgreiðslu á vöxtum sem greiddir voru vegna desember gjalddaga árin 2009 og 2010. Sú upphæð var millifærð inn á reikning viðskiptavina. Í heild hafa um 54 þúsund viðskiptavinir notið góðs af þessum aðgerðum.
Íslandsbanki hefur á þessu tímabili staðið fyrir eða tilkynnt um endurgreiðslu á um 2,8 milljörðum. Í dag gaf bankinn út að um 20 þúsund viðskiptavinir fengju endurgreidda 30% af þeim vöxtum sem þeir greiddu af húsnæðislánum og öllum almennum skuldabréfalánum hjá bankanum á síðasta ári.
Heildarupphæð endurgreiðslunnar er um 2,5 milljarðar króna en að meðaltali mun hver viðskiptavinur fá endurgreiddar um 120.000 krónur. Endurgreiðslan getur að hámarki numið 500.000 krónum á hvern viðskiptavin.
Íslandsbanki hefur einnig staðið fyrir endurgreiðslu til vildarviðskiptavina síðustu 4 ár. Með þessu móti hefur bankinn borgað út um 330 milljónir í formi punkta, sem viðskiptavinir geta breytt í krónur og tekið út.
Til viðbótar þessu gaf bankinn þeim sem ákváðu að breyta verðtryggðum og gengistryggðum lánum yfir í óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum vaxtaafslátt. Samkvæmt upplýsingum frá Íslandsbanka er heildarkostnaður vegna þess um 2 milljarðar. Þetta gekk þó ekki yfir þá sem ákváðu að halda áfram óbreyttum lánum.
Hjá Arion banka var í fyrra veittur svokallaður þakklætisvottur, en bankinn gaf viðskiptavinum þá afslátt af greiðslum ársins á undan. Nam afslátturinn sem nemur tveimur gjalddögum á íbúðalánum og 30% afslætti af vaxtagreiðslum ársins af yfirdráttarlánum. Heildarupphæð endurgreiðslunnar var 2,5 milljarður, en um 33 þúsund viðskiptavinir fengu greitt frá bankanum inn á reikninga sína.
Í kjölfar endurgreiðslunnar sem Íslandsbanki kynnti í dag spurðist mbl.is fyrir hjá hinum bönkunum hvort von væri á svipuðum aðgerðum. Fengust þau svör að um einskiptiaðgerðir hafi verið að ræða og að ekki væri gert ráð fyrir frekari endurgreiðslum eða afsláttur nú.