„Það kann að verða einhvern tíman eitthvað misræmi, en að setja heilt samfélag á hvolf vegna misræmis sem kann að lagast á næstu 3 til 5 árum“ er ekki skynsamlegt. Þetta segir Vilhjálmur Bjarnason, lektor, fjárfestir og frambjóðandi í komandi Alþingiskosningum um hvort ráðast þurfi gegn verðtryggingunni. Vilhjálmur er í viðtali í Viðskiptaþættinum með Sigurði Má hér á mbl.is þar sem hann fer yfir verðtrygginguna, erlend lán og skattakerfið sem hvetur til skuldsetningar.
Vilhjálmur bendir á að laun hafi hækkað um 235% síðan 1992, en á sama tíma hafi verðbólgan verið 148%. Á þessum tíma hafi því orðið mikil aukning kaupmáttar. Ef horft sé til skemmri tíma, til dæmis 5 ára, sé þessu aðeins öfugt farið, eða 43% verðbólga á móti 34% launahækkun, en á síðustu 3 árum hafa launin hækkað um 19,5% á móti 12,5% verðbólgu. Hann segir því nauðsynlegt fyrir fólk að hafa þolinmæði og að til lengri tíma muni launakjör aukast umfram verðbólguna.
Segir hann að vandamál vegna hækkandi greiðslubyrgði lána, sem afleiðing af höfuðstólshækkun, megi að nokkru leiti skýra með mikilli skuldasöfnun heimilanna. „Skuldir heimilanna hafa vaxið verulega á síðustu árum. Voru 25% af ráðstöfunartekjum 1980 en 250% af þeim 2008. Skuldirnar jukust um 8% á ári umfram ráðstöfunartekjur á góðæristíma.“