Norðurlöndin hafa þörf fyrir um 540 nýjar farþegaflugvélar sem samtals kosta yfir 56,8 milljarða Bandaríkjadala á næstu 20 árum, samkvæmt markaðsspá Airbus. Mest eftirspurn verður eftir minni vélum, en breiðþotur munu þó áfram halda sinni hlutdeild. Í spánni kom fram að umferð til og frá Íslandi hafi aukist um 129% á síðustu 10 árum, en gert er ráð fyrir árlegum vexti um 4% í umferð til og frá Íslandi til ársins 2032.
Á kynningarfundi á Grand hótel í morgun fór Andrew Gordon, yfirmaður markaðsrannsókna hjá Airbus, yfir framtíðarsýn fyrirtækisins á flugmarkaðinn. Sagði hann að umferð myndi áfram aukast mikið á heimsmælikvarða þrátt fyrir hærra olíuverð. Spáði hann því að umferð myndi tvöfaldast á næstu 15 árum, en stækkandi millistétt er ein af helstu ástæðum aukinnar flugumferðar.
Í Evrópu og öðrum þróaðri mörkuðum verður minni aukning, en Gordon telur samt sem áður að Ísland verði ofarlega á blaði, meðal annars með tilliti til tengiflugsins. „Ísland er landfræðilega vel staðsett á milli Norður-Ameríku og Evrópu. Tengiumferð um Ísland á milli Evrópu og Norður-Ameríku hefur aukist gríðarlega, eða um 129 prósent á síðustu tíu árum,“ segir hann. „Á næstu 20 árum gerum við ráð fyrir að á Íslandi verði mesta fjölgun farþega innan Norðurlandanna, eða um 4% árleg aukning og að umferð til hins mikilvæga Norður-Ameríku markaðar aukist um meira en 5% á hverju ári“ bætir hann við.