Norska olíuráðið segir þann árangur vera af rannsóknum í suðaustanverðu Barentshafi og á svæðinu umhverfis Jan Mayen að olíuforði Norðmanna hafi aukist um 15%.
Er talið að á þessum svæðum sé að finna lindir olíu og gass í jarðlögum neðansjávar. Eru þessar ófundnu lindir sagðar jafngilda 390 milljónum rúmmetra af ígildi olíu.
Frá þessu var skýrt á fundi olíuráðsins í Alta í Norður-Noregi í dag, en þar var gerð grein fyrir rannsóknum á framangreindum svæðum og kortlagningu þeirra. Sú kortlagning er forsenda þess að olíuleit- og vinnsla hefjist á þeim.
Um var að ræða 44.000 ferkílómetra hafsvæði meðfram rússnesku landamærunum í suðaustanverðu Barentshafi. Þar eru taldar leynast 300 milljónir rúmmetra af olíu í hafsbotni.
Á Jan Mayen-svæðinu er búið að kortleggja um 100.000 kílómetra og segir norska olíuráðið, að þar sé metið að geti leynst 90 milljónir rúmmetra af olíu í jörðu. Það séu varkárar spár og í reynd gæti verið um allt að 460 milljónir rúmmetra.