Lítil arðsemi í ferðaþjónustufyrirtækjum hefur verið áhyggjuefni í gegnum tíðina hér á landi. Meðal ástæðna fyrir því er stutt tímabil á ári þar sem fyrirtækin eru í fullum rekstri, en miklar árstíðasveiflur í komu ferðamanna orsaka slíkt. Þetta segir Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri í þættinum Viðskipti með Sigurði Má.
Spurð um möguleg bóluáhrif segir Ólöf að markmiðið sé að stuðla að frekari dreifingu ferðamanna og að þar hafi verið mikil samvinna milli ferðamannagreinarinnar og hins opinbera. Meðal annars sé til Framkvæmdasjóður ferðamannastaða sem veiti fjármunum í uppbyggingu ferðamannastaða vítt um landið. Þetta geti dreift úr umferðinni og komið í veg fyrir að sú mikla aukning sem nú á sér stað verði vandamál.
„Ég held að það hafi verið áhyggjuefni gegnum tíðina“ segir hún um litla arðsemi í greininni. „Ef þú ætlar að reka fyrirtæki með að hafa fullan rekstur í 12 vikur af 52 á ári, þá er það klárlega áskorunin“ segir hún, en hún leggur áherslu á að finna leiðir til að auka bæði dreifinguna um landið sem og yfir árið.