Samanlagt skiluðu samgöngur og ferðalög 82,2 milljarða afgangi í fyrra, samanborið við 68,3 milljarða árið 2011. Þýðir þetta með öðrum orðum að ferðamennska og aðrir flutningar hafi skilað 13,9 milljörðum meira af gjaldeyrisinnflæði í fyrra en árið á undan, og er munurinn meiri eftir því sem litið er lengra til aftur í tímann. Þetta kemur fram í morgunpunktum Íslandsbanka, en þar er einnig sagt frá því að árið 2013 hafi byrjað með látum í þessum geira.
Af þessu tölum Hagstofunnar er ljóst að ferðamannaárið í fyrra var það gjöfulasta frá upphafi. Er það í takti við aðrar tölur sem þegar var búið að birta, og því ætti þessi útkoma ekki að koma spánskt fyrir sjónir. Þannig höfðu tölur Ferðamálastofu Íslands sýnt að um metár var að ræða hvað fjölda erlendra ferðamanna varðar, og var fjölgun þeirra hér á landi verulega umfram fjölgun á utanlandsferðum Íslendinga. Jafnframt sýndu tölur Seðlabanka Íslands um kortanotkun erlendra aðila hér á landi að þeir hafa aldrei straujað kortin sín jafn miklu kappi á einu ári og í fyrra. Var kortanotkun þeirra jafnframt nokkuð umfram kortanotkun Íslendinga í útlöndum, sem er sjaldséð.
Óhætt er að segja að ferðamannaárið 2013 fari af stað með miklum látum í ár, en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim í janúarmánuði og nú í janúar. Sömu sögu má segja um kortanotkun þeirra, en hún hefur aldri áður verið jafnmikil í janúarmánuði og nú. Þannig voru brottfarir útlendinga um Leifsstöð 30% fleiri nú í janúar en í janúar í fyrra, á sama tíma og kortavelta þeirra jókst um 56%.
Á hinn bóginn var innan við 1% fjölgun á brottförum Íslendinga í janúar frá sama tíma í fyrra, og kortanotkun þeirra jókst um rúm 8% á tímabilinu. Var kortaveltuhallinn aðeins 162 milljónir í janúar, sem langminnsti kortaveltuhalli í janúarmánuði frá upphafi. Í fyrra var kortaveltuhallinn til að mynda 1,5 milljarður í janúar, eða nífalt meiri en nú.