Hagvöxtur mældist nokkru minni á síðasta ári en flestir höfðu gert ráð fyrir. Vöxturinn var 1,6%, og hægði verulega á honum frá árinu 2011 þegar hagvöxtur mældist 2,9% samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Minni fjárfesting og meiri innflutningur en vænst var virðist skýra lítinn vöxt í fyrra að miklu leyti. Þetta segir í greiningu Íslandsbanka, en þar er meðal annars bent á að fjárfesting á síðasta ársfjórðungi hafi dregist saman um 23%. Enn er langt í að landsframleiðslan komist á sama stig og fyrir hrun.
Ljóst er að lítil fjármunamyndun stendur efnahagsbatanum fyrir þrifum nú um stundir. segir í greiningunni, sem spáir því að Peningastefnunefnd Seðlabankans haldi stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár vegna hægari hagvaxtar.
Árið 2012 er annað árið í röð sem verg landsframleiðsla eykst eftir 10,4% samanlagðan samdrátt árin 2009-2010. Landsframleiðslan í fyrra var þó 6,5% lægri heldur en árið 2008 og því talsvert í land að landsframleiðslan komist aftur á þær slóðir sem hún var fyrir hrun.
Þjóðarútgjöld, sem endurspegla innlenda eftirspurn, jukust um 1,9% á árinu 2012 sem er talsvert minni vöxtur en var 2011 þegar þjóðarútgjöld jukust um 4,1%. Einkaneysla óx um 2,7% í fyrra sem er svipaður vöxtur og árið áður og í takti við nýjustu spá Seðlabankans.
Þá óx fjármunamyndun um 4,4% í fyrra frá árinu áður. Það er mun hægari vöxtur en árið 2011, þegar fjármunamyndun óx um 14,3%. Ef fjárfestingar í skipum og flugvélum eru undanskildar, sem hafa lítil sem engin endanleg áhrif á hagvöxt á viðkomandi ári þar sem þær koma til frádráttar í innflutningi, var 4,7% samdráttur í fjárfestingu árið 2012 frá árinu áður, fyrst og fremst vegna minni iðnaðarfjárfestingar.
Mikill samdráttur var í fjárfestingu á 4. Fjórðungi, eða sem nemur 23% frá árinu áður. Samdrátturinn milli ára skýrist af því að hið opinbera keypti varðskip á 4. fjórðungi árið 2011, og af minni fjárfestingu hjá stóriðju og orkufyrirtækjum. Í heild drógust þjóðarútgjöld saman um 2,6% á milli 4. fjórðungs 2012 og 2011. Er það í fyrsta sinn síðan á 3. fjórðungi 2010 sem samdráttur mælist í þjóðarútgjöldum