Þrátt fyrir að útflutningsverðmæti sjávarútvegsins og áliðnaðarins sé svipað þá er hlutur sjávarútvegsins af landsframleiðslu mun meiri. Þetta stafar meðal annars af því að áliðnaðurinn hefur ekki verið lengi í þeirri stærðargráðu sem hann er í dag. Þetta segir Gunnar Haraldsson, forstöðumaður hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má, en Gunnar telur áliðnaðinn eiga eftir að þróast mikið.
Munur á hlutfalli til landsframleiðslu „skýrist af því að það er ekki langt síðan að áliðnaðurinn varð jafn stór og hann er í dag og ég held að það séu ýmis teikn á lofti að við getum fengið enn meira út úr þessari grein heldur en við gerum í dag,“ segir Gunnar.
Hann telur að áliðnaðurinn eigi enn eftir að þroskast mikið og segir að ef Íslendingar miði sig við Kanada sé eftir miklu að slægjast í aukinni þróun álklasans.