„Við líðum fyrir það í iðnaði að menntakerfið hefur ekki í mörg ár, kannski áratugi slegið taktinn með atvinnulífinu.“ Þetta segir Svana Helen Björnsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins, en hún er í viðtali í þættinum Viðskipti með Sigurði Má. Svana telur að fjölmiðlar þurfi í meira mæli að ræða á jákvæðari hátt um verk- og raungreinar í stað þess að horfa of mikið til listrænna- og félagslegra starfa.
„Það er staðreynd að stóru tækifærin okkar í iðnaði eru í tækni- og verkgreinum. Það er að segja, þetta eru allskonar framkvæmdir og þetta eru tækni- og þekkingarfyrirtæki og við þurfum að beita tækninni til þess að bæta lífskjör okkar. Það er ekki nóg að hafa þessar góðu hugmyndir og við erum ekki að mennta fólk til þessara starfa í dag“ segir hún.
Svana leggur áherslu á að raunvísinda- og tæknigreinar þurfi öflugar fyrirmyndir og að krakkar í grunn- og framhaldsskólum átti sig ekki á möguleikum þessara starfa, til dæmis alþjóðlegum vettvangi. Þá spyr hún hvort nytsamlegt væri að setja upp iðnsýningar eins og voru haldnar á áttunda áratugnum, sem gæti sýnt ungu fólki hvað iðnaður býður upp á.