Hið dæmigerða íslenska ferðaþjónustufyrirtæki er einyrkjafyrirtæki sem stendur ekki undir launum tveggja starfsmanna. Slíkt fyrirtæki býr við náttúrulega óhagkvæmni sem fylgir svo litlum rekstri og er þarna meðal annars að leita skýringa á því hvers vegna arðsemi margra fyrirtækja í greininni hefur löngum verið ónóg.
Helmingur ferðaþjónustufyrirtækja skilaði tapi árið 2011, jafnvel þótt það hafi verið besta ár ferðaþjónustunnar þangað til, og kortavelta ferðamanna jókst um 15% milli ára. Þá skilaði tíunda hvert ferðaþjónustufyrirtæki ekki hagnaði á sjö ára tímabili, en slíkt er vísbending um svarta atvinnustarfsemi í greininni. Þetta kemur fram í greiningu hagfræðideildar Landsbankans í nýju tímariti um ferðaþjónustumál.
Raunarðsemi lánsfjármagns hjá hinu dæmigerða fyrirtæki hefur verið neikvæð í nokkuð mörg ár. Í smæð hins dæmigerða fyrirtækis felst eitt helsta verkefni greinarinnar, það er að búa til stærri og hagkvæmari einingar sem skila betri arðsemi segir í greiningunni. Tölurnar sýna að stærri fyrirtæki skilja meira eftir sig og eru arðsamari einingar og skiptir þar ekki máli í hvaða flokk ferðaþjónustunnar borið er niður. Það eru því fyrst og fremst þau sem geta byggt upp og stuðlað að framþróun í ferðaþjónustu og haft þannig jákvæð þjóðhagsleg áhrif.