Nú um helgina munu rúmlega 60 einstaklingar koma saman á Startup Weekend Reykjavík, sem haldin er í Háskóla Reykjavíkur. Þar munu þátttakendur kjósa um bestu frumkvöðlahugmyndirnar, koma þeim á koppinn og svo kynna þær fyrir dómnefnd sem mun verðlauna bestu hugmyndina og hlýtur hún 200 þúsund krónur í verðlaun.
Það er Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur, í samvinnu við Landsbankann sem stendur að helginni, en stjórnandi viðburðarins verður Alistair Shepherd, sem kemur frá Startup Weekend Europe.
Þátttakendum verður boðin aðstoð fjölmargra leiðbeinenda, en meðal þeirra að þessu sinni eru Frosti Sigurjónsson raðfrumkvöðull, Bala Kamalakharan frá Greenqloud, Þóranna Jónsdóttir markaðssérfræðingur hjá Markaðsmál á mannamáli, Ragnar Guðmundsson lögmaður hjá Advel, Helgi Pjetur Jóhannsson hjá Stokkur Mobile og Kristín Jóhannsdóttir frá Kauphöll Íslands Nasdaq OMX.
Stefán Þór Helgason, verkefnastjóri hjá Innovit, segir í samtali við mbl.is að hann vilji „sjá duglegt og hugmyndaríkt fólk koma saman þannig að frjóar hugmyndir geti orðið að veruleika og leiði þannig af sér vöxt góðra fyrirtækja.“ Hann segir ekki nauðsynlegt að allir sér með hugmyndir, heldur geti verið nóg að vilja taka þátt í uppbyggingu verkefnanna. „Þátttakendur þurfa ekki að vera með hugmyndir. Pælingin er að tengja framkvæmdaaðila og hugmyndasmiði saman,“ segir Stefán.
Á heimsvísu hafa um 5.000 fyrirtæki verið stofnuð á Startup Weekend viðburðum með þátttöku 57.000 frumkvöðla í 100 löndum. Innovit hefur tvívegis haft umsjón með Startup Weekend á erlendri grundu. Annars vegar í Árósum í Danmörku og hins vegar í Tehran höfuðborg Írans.