Breski HSBC bankinn skoðar nú frekari uppsagnir, en í Financial Times í dag er sagt frá því að 5000 uppsagnir gætu verið í burðarliðnum á næstunni hjá þessum stærsta banka Evrópu.
Uppsagnirnar myndu spara 1 milljarð Bandaríkjadala á ársgrundvelli í laun, en það er sú lækkun sem stjórnendur bankans vilja ná fram. Á síðustu tveimur árum hefur bankinn fækkað starfsfólki um 30 þúsund á alþjóðavísu.
Hagnaður bankans minnkaði um 16,5% á síðasta ári, en hann var um 14 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur 1820 milljörðum íslenskra króna. Sektir vegna aðkomu bankans að peningaþvætti og sölu á ólöglegum fjármálagjörningum eru sögð vera ein af megin ástæðum versnandi gengis.