Undirliggjandi hrein erlend staða þjóðarbúsins er neikvæð um 60% af landsframleiðslu, eða sem nemur rúmlega eitt þúsund milljörðum króna. Þetta kemur fram í nýju sérriti Seðlabanka Íslands, en miðað við fyrirliggjandi þjóðhagsspá gerir bankinn ráð fyrir því að hrein erlend staða í hlutfalli af landsframleiðslu muni batna um 18 prósentur fram til loka árs 2017 eða um rúmar 3 prósentur á ári.
Nokkur óvissa er um þessa stærð en talið líklegt að hún verði á bilinu -80% til -35% að því er segir í skýrslunni, en undirliggjandi hrein erlend staða er erlend staða án innlánsstofnana í slitameðferð og án Actavis, en með reiknaðri niðurstöðu úr uppgjörum innlánsstofnana í slitameðferð og nokkurra annarra stórra félaga í slitameðferð.
Samkvæmt skýrslunni eru undirliggjandi erlendar eignir þjóðarbúsins 2138 milljarðar, en skuldirnar 3154 milljarðar. Þá segir að undirliggjandi viðskiptajöfnuður nægi ekki til að standa við afborganir af skuldum. Ítrekar bankinn að endurfjármögnun hluta þeirra sé forsenda stöðugs gengis.