Gas hér við land nær einskis virði

Dr, Dag Harald Claes, prófessor við Háskólann í Ósló.
Dr, Dag Harald Claes, prófessor við Háskólann í Ósló.

Magn olíu og kolvetnis á norðurheimskautssvæðinu er ekki það mikið að það muni hafa efnahagsleg áhrif á heimsmarkaði. Þetta segir dr. Dag Harald Claes, prófessor við Háskólann í Ósló, en hann telur að yfirlýsingar bandarísku jarðfræðistofnunarinnar, um að 25% af ófundnum kolvetnislindum heimsins sé að finna á heimskautasvæðinu, séu villandi og ekki ætlaðar til upplýstrar ákvarðanatöku. Þá segir hann að ef gas finnist hér við land sé það einskis virði, en olía gæti hins vegar gefið af sér.

Claes flutti fyrirlestur á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands á Hótel Sögu í dag og var ekki jafn bjartsýnn á orkuauðlindanýtingu á heimskautasvæðinu og margir hafa viljað láta af hingað til.

Þarf að fara varlega í alhæfingar 

Í tölum sínum skilgreinir Claes heimskautasvæðið sem svæði fyrir norðan heimskautabaug. Drekasvæðið og mögulegar olíulindir austur af Grænlandi eru því með í þessum tölum hans, en hann telur að fara verði mjög varlega í allar alhæfingar um mögulegan kolvetnisfund við bæði þessi lönd. Nefnir hann sem dæmi að í Færeyjum hafi verið borað í langan tíma án árangurs.

Claes vitnaði til skýrslu bandarísku jarðfræðistofnunarinnar varðandi möguleika á kolvetnavinnslu á norðurslóðum. „Vandamálið er hvernig þessi skýrsla hefur verið sett fram í fjölmiðlum og meðal almennings og stjórnmálamanna. Þegar sagt er að það gæti verið 25% af ófundnum kolvetnum, þá eru orðin „gæti“ og „ófundin“ venjulega ekki meðfylgjandi í umræðunum og hafa því orðið að staðreyndum sem þau eru ekki.“

Aðeins 6,5% af olíulindum á heimskautasvæðinu

Hann segir engar boranir eða raunverulegar rannsóknir hafi átt sér stað sem styðji þessar tilgátur, en auk þess sé hlutur ófundinna kolvetnislinda ekki svo stór. Sagði hann að því heildarmagni sem spáð er að sé á heimskautasvæðinu, þá sé það aðeins um 6,5% af þeirri olíu sem er talið að sé bæði fundin og ófundin í heiminum. Gaslindirnar geti þó verið aðeins meiri eða um 24%.

Gasið einskis virði

Það sem dregur enn frekar úr vægi þessara linda er að þau eru á miklu eða mjög miklu dýpi og því er borun og framleiðsla mjög dýr. Segir hann að gaslindir á þessu svæði gætu orðið einskis virði vegna kostnaðar við að vinna gasið. „Horfurnar eru að ef þið finnið gas, þá er það væntanlega ekki neins virði, en ef þið finnið olíu er hægt að nýta hana. Það væri aftur á móti enginn markaður fyrir gasið.“

Þá segir Claes að Rússar eigi kall til stærsta hluta þess svæðis sem talið sé að kolvetnislindir geti fundist á. Miðað við kröfur landa í dag segir hann að áætla megi að Rússland muni ráða yfir um 57% af þeirri olíu sem er á svæðinu og allt að 95% af gasi. Bandaríkin eru hinn stóri aðilinn með um 40% af olíu og 3,2% af gasi. Önnur ríki eins og Noregur, Kanada og Grænland fá aftur á móti lítinn hluta af þessum auðlindum.

Efnisorð: olía
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK