Markmið Íslands ættu að vera að fjölga ferðamönnum í 1,3 milljónir fyrir árið 2020, fá 150 þúsund skemmtiferðagesti, bæta nýtingu hótela og tæplega þrefalda tekjur í ferðaþjónustunni. Þetta kemur fram í nýrri skýrsla ráðgjafafyrirtækisins PKF um heildarúttekt á íslenskri ferðaþjónustu sem kynnt var í morgun á fundi á vegum Íslandsstofu, en þar kemur fram að tekjur af ferðaþjónustu geti orðið um 325 milljarðar á árinu 2020.
„Þeir leggja til að Ísland verði fremsti sjálfbæri áfangastaður í heimi sem bjóði spennandi kosti allt árið um kring og þeir kostir endurspegli einstaka náttúru og menningu landsins,“ segir Jón Ásbergsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu. Hann segir að í skýrslunni sé bent á fjölda atriða sem þurfi að hafa í huga varðandi framtíðar uppbyggingu ferðaþjónustunnar.
„Meðal annars er nefnt að stýring þurfi að vera á flæði ferðamanna um landið og áhersla er lögð á ferðaþjónustu utan háannar,“ segir Jón. Þá kemur fram í skýrslunni að markaðsstarfið sé of flókið og að nauðsynlegt sé að einfalda það með að fækka vörumerkjum sem gert er út á í landkynningarskyni.
Skýrsluhöfundar dvelja einnig nokkuð við mikinn ágang ferðamanna á ákveðna staði eins og á gullna hringnum. „Þeir hafa áhyggjur af því eins og aðrir að burðarþol landsins sé ekki óendanlegt og það þurfi að huga að því hvernig þessu sé stýrt svo við verðum ekki Benidorm norðursins,“ segir Jón. Hann leggur þó áherslu á að skýrsluhöfundar telji ekki að ferðamenn séu orðnir of margir, það þurfi aftur á móti að fylgja því eftir með aðgerðum og stýringu.