Gæti orðið stærra en Facebook og Apple

Jack Ma, stofnandi og forstjóri Alibaba
Jack Ma, stofnandi og forstjóri Alibaba mynd/wikipedia.org

Kínverska netfyrirtækið Alibaba er ekkert voðalega þekkt á vesturlöndum, en engu að síður gæti það orðið eitt af stærstu og verðmætustu fyrirtækjum heims á komandi árum. Fyrirtækið rekur vefsíður þar sem notendum gefst kostur á að selja vörur sínar til annarra fyrirtækja eða einstaklinga, en hefur einnig verið að færa sig út í lánastarfsemi og situr á gríðarlega miklum upplýsingum um neysluvenjur og hegðun milljóna Kínverja sem er ekki síður verðmætt.

Í nýjasta hefti tímaritsins The Economist er fjallað um þennan kínverska risa, en á næstunni er mögulegt að fyrirtækið verði skráð á markað og vilja sumir sérfræðingar meina að verðmæti fyrirtækisins gæti strax orðið meira en Facebook. 

Enskukennari sem stjórnar nú einu stærsta fyrirtæki Kína

Alibaba var stofnað árið 1999 af Jack Ma, fyrrum enskukennara. Samnefndri vefsíðu var ætlað að tengja saman litla kínverska framleiðendur og kaupendur erlendis. Fljótlega fylgdi  vefsíðan Taobao í kjölfarið, en það er sölumarkaður fyrir einstaklinga sem vilja selja öðrum einstaklingum vörur, ekki ólíkt eBay. Í dag er síðan ein af 20 mest heimsóttu vefsíðum á internetinu.

Nýjasta viðbótin í veldi Alibaba er Tmall, en það er vettvangur þar sem þekktum fyrirtækjum er auðveldað að selja vörur til neytenda. Hefur þessu verið líkt við Amazon, en ætlunin er að sögn Economist að selja vörur frá framleiðendum eins og Disney og Levi's til ört stækkandi millistéttar í Kína.Á síðasta ári voru tekjur fyrirtækisins um 170 milljarðar dala, en það er meira en eBay og Amazon fengu inn samanlagt. 

Mögulega stærri skráning en hjá Facebook

Nýlega tilkynnti stofnandinn, Ma, að hann ætlaði að stíga til hliðar í maí og hleypa nýjum stjórnanda að, Jonathan Lu. Þetta þykir vera til marks um að félagið stefni á skráningu á markaði, en sérfræðingar hafa sagt að félagið gæti verið metið á 55 til 120 milljarða Bandaríkjadali. Til samanburðar var Facebook metið á 104 milljarði dala þegar það kom á markað. Síðan þá hefur reyndar gengi bréfanna fallið mikið og er það í dag metið á 63 milljarða.

Verður Alibaba stærra en Apple?

Sagt er í greininni að á komandi árum séu möguleikar á að Alibaba geti stækkað mikið og jafnvel ógnað stöðu stærstu fyrirtækjanna. Í dag er Apple verðmætasta fyrirtæki heims, en félagið er metið á 420 milljarða dollara. Economist bendir á að fyrir 4 árum þá hafi markaðsvirði þess þó aðeins verið 90 milljarðar dollara. 

Þá eru vaxtamöguleikar Alibaba gífurlegir, en gert er ráð fyrir að netmarkaðurinn í Kína verði eftir 7 ár orðinn stærri en núverandi markaðir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Japan, Þýskalandi og Frakklandi samanlagt. Það eru því mikil sóknartækifæri fyrir þennan kínverska risa sem sendir vörur í dag sem telur um 60% af pakkasendingum í Kína.

Lánveitingar og tryggingar

En Alibaba hefur ekki einskorðað sig við netmarkaðinn. Fjárfestingaarmur þess er orðinn nokkuð stór í lánveitingum til minni fyrirtækja og ætlunin er að færa út kvíarnar og hefja lánveitingar til einstaklinga á næstunni. Þá hefur Alibaba einnig sótt fram á tryggingamarkaðinum, en þar hafa netsíður fyrirtækisins reynst góður söluvettvangur. 

Stærsti möguleikinn gæti þó legið í gífurlega miklum upplýsingum sem fyrirtækið hefur yfir að búa um neysluvenjur og greiðslugetu kínversku millistéttarinnar, auk milljóna kínverskra verslunarmanna. Economist segir að það sé einmitt þessi vitneskja sem sé einnig helsta hættan fyrir Alibaba. Kínversk stjórnvöld gætu nefnilega talið þetta vera of mikla gagnaöflun um kínverska þegna og það er aldrei að vita hvað þarlend stjórnvöld tækju upp á ef Alibaba fellur í ónáð.

Alibaba vefsíðan veltir gífurlegum upphæðum, en sala fyrirtækisins í heild …
Alibaba vefsíðan veltir gífurlegum upphæðum, en sala fyrirtækisins í heild er meiri en hjá Amazon og eBay samanlagt.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK