Samningur um stafræna dreifingu Vodafone fyrir Ríkisútvarpið undirritaður Vodafone mun annast stafræna sjónvarpsdreifingu fyrir Ríkisútvarpið næstu 15 árin samkvæmt samningi sem undirritaður var í dag. Tekjur Vodafone vegna þjónustunnar verða um 4 milljarðar króna á tímabilinu. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Ætluð áhrif til hækkunar á EBITDA hjá Vodafone á ársgrundvelli nema um 3 - 5%. Þá má ætla að fjárfestingar fyrirtækisins á árunum 2013 og 2014 verði umfram áður uppgefin viðmið vegna samningsins og verði á bilinu 10 - 13% af tekjum. Gert er ráð fyrir jákvæðum áhrifum á afkomu félagsins.
Samkvæmt samningnum tekur Vodafone yfir rekstur allra núverandi dreifikerfa Ríkisútvarpsins, bæði fyrir sjónvarp og útvarp. Rekstur á FM- og langbylgjusendingum Ríkisútvarpsins verður viðvarandi á samningstímanum, en gert er ráð fyrir að rekstur á hliðrænu sjónvarpsdreifikerfi Ríkisútvarpsins leggist af í árslok 2014. Fyrir þann tíma mun Vodafone tryggja að stafrænar útsendingar á tveimur háskerpurásum fyrir Ríkisútvarpið standi 99,8% heimila til boða.