Þrjár hótelkeðjur koma til greina

Hótelreiturinn er við hlið Hörpunnar, en gert er ráð fyrir …
Hótelreiturinn er við hlið Hörpunnar, en gert er ráð fyrir rúmlega 250 herbergja hóteli. Rax / Ragnar Axelsson

Eftir að viðræður við World Leisure Investment, um byggingu lúxushótels við hlið Hörpu, runnu út í sandinn, hefur Sítus, félag í eigu Reykjavíkurborgar og ríkisins verið í viðræðum við nýja fjárfesta um að reisa hótel á reitnum. Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Sítusar segir að viðræður séu hafnar við Auro Investment Partners, en það er indverskt fjárfestingafélag með tengingu við Ísland. Gert er ráð fyrir að samningaviðræður standi fram á sumar, en til greina kemur að reisa hótel undir nafni Sheraton, Westin eða Le Méridien.

Indverskir fjárfestar með reynslu af Íslandi

„Við erum bara í viðræðum við þá og gefum okkur fram í júní til að tala við þá,“ segir Pétur, en Auro Investment Partners voru með næst besta tilboðið á sínum tíma. Hann segir þetta vera indverskan fjárfestingahóp sem hafi aðra sýn en þýski hópurinn sem var á bakvið World Leisure Investment. 

Sá sem hefur leitt þær viðræður er Bala Kamallakharan, en hann hefur verið búsettur hér á landi síðustu árin og er meðal annars einn af stofnendum Startup Iceland og hefur þar að auki fjárfest í sprotafyrirtækjum hér á landi.

5 milljarða fjárfesting

Pétur sagði í síðasta mánuði að ein ástæða þess að fyrri viðræður hafi farið út í sandinn sé hræðsla fjárfesta við ástandið hér á landi. Aðspurður hvort Auro Investment hafi einhverja aðra sýn á þessi mál segir Pétur að tenging hópsins við Ísland sé mun meiri og þekki umhverfið hér betur. „Það gefur góðar vonir og einn þessara fjárfesta býr hér á landi“.

Horft er til svipaðrar stærðar á hóteli og upphaflega var lagt af stað með, en það var bygging rúmlega 250 herbergja hótels sem væri 4 til 5 stjörnu. Samkvæmt því sem mbl.is kemst næst er áætlað að kostnaður við eitt herbergi í þessum gæðaflokki sé í kringum 20 milljónir. Því má lauslega áætlað að heildarfjárfesting við 250 herbergja hótel sé í kringum 5 milljarðar.

Fjárfestu hér fyrst árið 2009

Kamallakharan segir í samtali við mbl.is að viðræður séu hafnar milli aðila, en að formlegar samningaviðræður séu þó ekki komnar af stað. Aðspurður hvenær hann telji að formlegar viðræður fari í gang segir hann að hópurinn vilji hefjast handa við samningaviðræður sem fyrst og að nú þegar séu þeir tilbúnir með góðan hóp fjárfesta sem eru tilbúnir að taka þátt í verkefninu.

Þegar Kamallakharan er spurður út í hvort hópurinn sé jákvæður út í fjárfestingar hér á landi segir hann að Auro Investments hafi strax árið 2009 komið með peninga hingað til lands og þá hafi óvissan verið mun meiri. Slíkt sé því ekki að halda aftur af fjárfestingu þeirra, en hann segir að horft sé til hóteluppbyggingarinnar sem langtímafjárfestingar.

Reka hótel víðsvegar um heiminn

„Það er mikið um áskoranir varðandi höftin hér á landi, en við munum vinna okkur í gegnum þær. Við erum ákveðnir í að fjárfesta á Íslandi og erum hér til langs tíma og vonandi munu þessar hömlur hverfa á þeim tíma,“ segir Kamallakharan. 

Hingað til hefur Auro Investment ekki staðið í hótelrekstri í Evrópu, en þeir eru þó vanir slíku annarstaðar í heiminum og eru meðal annars að byggja hótel á Indlandi og Sri Lanka að sögn Kamallakharan.

Sheraton, Westin og Le Méridien koma til greina

„Hótelrekstur er grunnrekstur Auro Investment á Indlandi og þetta er grunnrekstur okkur í öllu sem við gerum,“ segir hann, en meðal samstarfsaðila félagsins í þessu verkefni eru hóteleigandinn Starwood og Mannvit.

Starwood er meðal annars eigandi að keðjunum Sheraton, Westin, Le Méridien, Aloft og W Hotels, en þau þrjú fyrstnefndu eru meðal þeirra sem koma helst til greina hérlendis að mati Kamallakharan.

Bala Kamallakharan er indverskur fjárfestir, en hann er í forsvari …
Bala Kamallakharan er indverskur fjárfestir, en hann er í forsvari fyrir Auro Investment Partners hér á landi. Árni Sæberg
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa.
Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa. mbl.is/Hjörtur
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK