Hugbúnaðarhúsið Maritech ehf. hefur breytt nafni sínu í Wise lausnir ehf. Kennitalan helst óbreytt og nafnbreytingin kemur ekki til með að hafa áhrif á daglegan rekstur hjá fyrirtækinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Með breytingunni erum við fyrst og fremst að styrkja vörumerkið Wise og samræma markaðsstefnu okkar og Wise Dynamics, dótturfyrirtækis okkar í Kanada,“ segir Hrannar Erlingsson, framkvæmdastjóri Wise lausna ehf.
Maritech var stofnað árið 1995. Fyrirtækið sérhæfði sig upphaflega í sjávarútvegi en jók hratt framboð á lausnum og varð fljótlega öflugt á sviði viðskiptalausna fyrir allflestar atvinnugreinar. Þegar kom að nafnbreytingu lá Wise nafnið beinast við því það hefur hefur verið notað um árabil á mörgum hugbúnaðarlausnum fyrirtækisins. Má þar meðal annars nefna Wise Fish sem hefur verið selt á alþjóðmarkaði á annan áratug og Wise Analyzer greiningartólið.
Starfsmenn Wise lausna ehf. eru í dag um 80 talsins. Fyrirtækið rekur tvær starfsstöðvar á Íslandi með 70 starfsmönnum og eina í Halifax í Kanada, þar sem starfsmenn eru 10 talsins.