„Það verður ekki farið aftur í vegferð eins og 2008 sem heldur opinni áhættu gagnvart bara heimilunum.“ Þetta sagði Gylfi Arnbjörnsson á fundi Samtaka fjármálafyrirtækja, ASÍ og Íbúðalánasjóðs um framtíð húsnæðislána hérlendis.
Hann sagðist vilja réttláta áhættudreifingu, en þegar talað sé um að draga eigi úr vægi verðtryggingarinnar þurfi að vera eitthvað í boði í stað þess sem fyrir sé. Gylfi sagði engan stjórnmálaflokk hafa komið með raunhæfar lausnir við því.
ASÍ hafi á síðasta ári komið með hugmyndir sem byggðu á dönsku húsnæðislánakerfi sem hafi ekki fengið mikla athygli. Því hafi sambandið þýtt dönsku lögin um kerfið og hvernig það virkaði sem hafi verið lagt fram nýlega.
„Markmiðið er ekki að tryggja hagsmuni stofnana, heldur lántaka og fjárfesta,“ sagði Gylfi, en hann segir að danska kerfið útrými mörgu því sem talið hefur verið neikvætt í íslenska húsnæðislánakerfinu. Segir hann þar á meðal vera misvægi í lánstíma, ólíka vexti, gjaldmiðlaáhætta, vogun eða skuldatrygging og endurfjármögnunaráhætta.
Gylfi benti á að umfang á markaði með óverðtryggð skuldabréf væri orðið mikið og gæti orðið til þess að byggja öflugan markað á þessu sviði hérlendis. Í Danmörku hefur þetta kerfi gert það að verkum að íbúðabréfin eru talin álíka seljanleg og ríkisskuldabréf, enda fái þau háa einkunn matsfyrirtækja, en enginn hefur tapað á bréfunum síðustu 200 ár. Þetta styðji einnig við peningastefnu þegar kemur að vaxtabreytingum hjá danska seðlabankanum.