Fjárhagsstaða heimilanna virðist hafa batnað nokkuð á milli áranna 2011 og 2012 samkvæmt lífskjararannsókn Hagstofunnar sem birt var í morgun. Í fyrra áttu 63.500 heimili auðvelt með að ná endum saman í heimilisrekstri sínum samanborið við 58.800 árinu áður. Fjölgunin er 4.700 eða 8,0%. Er þetta fyrsta árið eftir hrun sem fjölgar í þessum hópi. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka.
Segir þar að þessar breytingar tengist eflaust meðal annars þeirri aukningu sem hefur verið í kaupmætti ráðstöfunartekna heimilanna, en á árinu 2011 jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna um 5,3% og síðan aftur um 1,8% í fyrra.
Þá telur greiningardeildin að þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að lækka skuldir heimilanna hafi einnig haft áhrif, en skuldir heimilanna sem hlutfall af landsframleiðslu voru komnar í 109% í ágúst í fyrra eftir að hafa farið í 132% af landsframleiðslu undir lok árs 2008.
Þannig kemur fram í lífskjararannsókninni að þeim hefur fækkað um 5.100 eða 13,3% sem telja húnæðiskostnað, þunga byrði. Þá fækkaði um 1.400 heimili eða um 7,8% í hópi þeirra sem telja að önnur lán séu þung byrði.
Hlutfall þeirra heimila sem eru í vanskilum með húsnæðislán sín eða leigu stóð í stað á milli áranna 2011 og 2012 í 10,1%. Er þetta í fyrsta sinn frá hruni sem þetta hlutfall stendur í stað, en það tvöfaldaðist nær á tímabilinu frá 2008 til 2011, þ.e. fór úr 5,5% í 10,1%. Vanskil annarra lána eru einnig farin að lækka og voru 10,4% heimilanna með slík lán í vanskilum í fyrra samanborið við 12,3% á árinu 2011.
Frétt mbl.is: 10,1% heimila lent í vanskilum