Guðmundur Arnar Guðmundsson, markaðsstjóri WOW Air, hefur sagt upp störfum hjá fyrirtækinu. Þetta staðfesti Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi félagsins við mbl.is. Sagði hún að fullkomið samkomulag væri um starfslokin og að Guðmundur myndi áfram verða félaginu innan handar á næstu mánuðum, en hann mun starfa hjá félaginu út þetta sumar.
Í tilkynningu segir Guðmundur það hafa verið skemmtilega áskorun að byggja upp nýtt vörumerki. „Það er ekki á hverjum degi sem maður fær tækifæri til að byggja upp vörumerki frá grunni. Það hefur verið áskorun og skemmtilegt að taka þátt í uppbyggingu WOW air. Á mínum ferli hefur vörumerkjastjórnun, upplifanir og markaðssetning á netinu átt hug minn allan en það hefur reynt mikið á alla þessa þætti hjá WOW air.“
Fyrr í dag sagði Viðskiptablaðið frá því að WOW Air hefði skipt um auglýsingastofu og farið frá Brandenburg yfir til Hvíta hússins. Svanhvít sagði að það hefði ekki haft áhrif á þessar breytingar.