Kýpversku höftin valda meiri skaða

Gylfi Magnússon, dósent.
Gylfi Magnússon, dósent. mbl.is6

„Það er hræðileg staða fyrir íbúa Kýpur að hafa glatað trausti sínu á bankakerfinu. Það er ekki sjálfbært til lengri tíma litið að halda í þessi gjaldeyrishöft. Það er ekki hægt að halda úti nútímalegu efnahagslífi þar sem fyrirtæki og innistæðueigendur hafa ekki frelsi til þess að nota peningana sína,“ segir Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra, í samtali við fréttavefinn Euobserver.com.

Hann segir að það verði líklega auðveldara fyrir Kýpverja að aflétta gjaldeyrishöftunum en Íslendinga þar sem kýpversk stjórnvöld geti treyst á aðstoð frá Evrópska seðlabankanum. Hins vegar hafi gjaldeyrishöftin á Kýpur miklu meiri skaða í för með sér fyrir efnahagslíf landsins en höftin á Íslandi. Fram kemur í fréttinni að þannig nái gjaldeyrishöftin á Kýpur til daglegra millifærsla almennings og fyrirtækja sem aldrei hafi orðið raunin á Íslandi.

ESB tekið á vandanum tilviljanakennt

Gylfi segir ennfremur að svo virtist utanfrá séð sem viðbrögð evrusvæðisins við efnahagserfiðleikum Kýpur hafi ekki stuðst við neina áætlun og ráðamenn Evrópusambandsins hafi einfaldlega spilað málið eftir hendinni og hver slæma hugmyndin komið á fætur annarri. Það væri ekki til þess fallið að byggja upp traust á kerfinu.

Þá segir hann að hugsanlega hefði verið betra fyrir Kýpur að standa fyrir utan evrusvæðið í ljósi þess að erfið ár séu framundan fyrir landið og ekki mögulegt að fella gengi gjaldmiðilsins eins og gerst hafi á Íslandi. Hann myndi samt ekki ráðleggja Kýpverjum að segja skilið við evruna núna jafnvel þó efast megi um það hvort skynsamlegt hafi verið að taka hana upp.

„Frekar ætti að aflétta gjaldeyrishöftunum til þess að innlend greiðslumiðlun geti gengið greiðlega fyrir sig og setjast niður og finna út hvað sé hægt að gera til þess að færa byrðarnar frá heimamönnum sem tapað hafa miklu með ósanngjörnum hætti yfir í réttlátari lausn,“ segir Gylfi ennfremur.

Frétt Euobserver.com

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK