Sóttu hálfan milljarð til leikjaþróunar

Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla.
Þorsteinn Baldur Friðriksson, stofnandi og forstjóri Plain Vanilla. Morgunblaðið/Rósa Braga

Íslenska leikjafyrirtækið Plain Vanilla hefur náð að tryggja sér rúmlega 300 milljón króna fjármögnun í Bandaríkjunum, en það kemur til viðbótar við um 150 milljónir sem settar voru í fyrirtækið sumarið 2012. Meðal aðila sem settu fé í fyrirtækið voru Greycroft Partners, Tencent, IDG ventures og BOLDStart Ventures.

Stefna á Asíumarkað

Fjármögnunin verður notuð til að þróa spurningaleikjagrunninn QuizUp fyrir farsíma og spjaldtölvur, sem meðal annars er notaður fyrir leikina Twilight Saga QuizUp og Math QuizUp, sem Plain Vanilla hefur þróað. Þá er einnig áætlað að sækja á Asíumarkað og mun fjármagnið verða nýtt í sókn fyrirtækisins þangað.

Ein milljón notenda á síðasta fjórðungi

Á síðasta ársfjórðungi skráðu um ein milljón notendur sig í QuizUp samfélagið, sem er bæði ætlað fyrir iOS og Android stýrikerfi. Þar geta notendur keppt í spurningakeppnum á móti öðrum notendum á milli mismunandi stýrikerfa. Það er einmitt þessi möguleiki sem gerir þetta spurningakerfi svona áhugavert að mati Þorsteins Baldurs Friðrikssonar, stofnanda og forstjóra fyrirtækisins.

„Með QuizUpp kerfinu geta notendur hitt og átt í samskiptum við fólk um allan heim sem hefur svipuð áhugamál“ segir Þorsteinn. Haft er eftir Ed Sim, hjá BOLDstart Ventures, að rauntíma spurningaleikir séu stórt tækifæri á leikjamarkaðinum þar sem hvaða leikur sem er geti náð langt. Hann segir Plain Vanilla vel staðsett upp á að verða bæði ráðandi á þessum markaði og að skapa nýjan samskiptavettvang.

Ekki alltaf dans á rósum

Í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði sagði Þorsteinn frá því að rekstur sprotafyrirtækis í leikjageiranum væri ekki alltaf dans á rósum, en á síðasta ári ákvað hann að fara til Bandaríkjanna þegar fokið hafði í flest önnur skjól og sækja þar fjármagn. Það hafðist, en Þorsteinn segir að mikil vinna, heppni og tengslanet hafi skipt miklu máli upp á það að gera.

Fyrirtækið hefur meðal annars verið í samstarfi við stór kvikmyndaver í Hollywood og sló nýverið í gegn með leik um Twilight-seríuna. Áður hafði fyrirtækið gert leikinn Moogies sem var ætlaður yngsta aldurshópnum.

Skjáskot úr nýja Twilight-leiknum
Skjáskot úr nýja Twilight-leiknum Plain Vanilla Games
Efnisorð: Plain Vanilla Games
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK