Nefnd með fulltrúum þingflokka um afnám gjaldeyrishafta leggur í bréfi til fjármálaráðherra til að leitað verði liðsinnis utanaðkomandi eða erlendra sérfræðinga til að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir afnámsferlið.
Nefndin undirstrikar að afnám fjármagnshafta verði að nálgast með heildrænum hætti. Lausnir á afmörkuðum vanda innan hafta geti seinkað afnámi þeirra í heild og jafnvel ógnað fjármála- og stöðugleika.
Í bréfinu segir að viðhorf erlendra kröfuhafa í þrotabú föllnu viðskiptabankanna virðist hafa breyst í grundvallaratriðum í kjölfar umræðunnar um erlenda skuldastöðu þjóðarbúsins og þá miklu gagnrýni sem komið hefur fram um að nauðarsamningum, í tengslum við þrotabúin, verði veitt brautargengi.
Að mati nefndarinnar er þessi viðhorfsbreyting ekki síst tilkomin vegna þeirrar pólitísku samstöðu sem tekist hefur að mynda í tengslum við málið.
„Þannig má segja að nú ríki almennt sátt um að fjármagnshöft verða ekki losuð nema að til staðar sé heildarlausn sem taki á öllum þáttum málsins hvort sem það snýr að upphaflegu snjóhengjunni, uppgjöri allra föllnu viðskiptabankanna og þeim reglum sem hér þarf að setja til þess að tryggja fjármálastöðugleika eftir að höftum er aflétt.“
Nefndina skipa Björn Rúnar Guðmundsson, formaður, Bolli Héðinsson, Huginn Freyr Þorsteinsson, Jón Helgi Egilsson, Sigurður Hannesson og Tryggvi Þór Herbertsson.
Sjá má bréf nefndarinnar í heild hér.