Í morgun lagði WOW air formlega inn umsókn fyrir flugrekstrarleyfi til handa félaginu ásamt umbeðnum handbókum. Umsókn um flugrekstrarleyfi er liður í því að styrkja og treysta rekstur WOW air sem hyggst í framtíðinni reka sína eigin flugvélar og fljúga til Norður Ameríku. Vonast félagið til þess að geta hafið daglegt flug til Ameríku frá og með næstkomandi vori fái það leyfið.
Í tilkynningu frá WOW air kemur fram að umsókninni hafi þurft að fylgja heilmikil gögn, en heildarblaðsíðufjöldi umbeðinna handbóka eru rúmlega 7500 blaðsíður. Flugmálastjóri Pétur Maack og hans næstráðendur tóku á móti gögnunum hjá Flugmálastjórn Íslands.
Meira en 20 ár eru liðin síðan sótt var síðast um flugrekstrarleyfi til handa félagi sem stundar áætlunarflug til og frá Íslandi. „Umsókn okkar um flugrekstrarleyfi mun brjóta blað í sögu okkar félags og við höfum lagt mikinn metnað í gerð handbóka og annarra umbeðinna gagna. Þetta mun styrkja stoðir félagsins og sýna almenningi að með þessu er kominn verðugur valkostur í samgöngum til og frá Íslandi“ segir Björn Ingi Knútsson framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs.
Starfsemi WOW air hefur tvöfaldast síðan síðastliðið sumar og frá með næsta mánuði mun fast- og lausráðið starfsfólk nema um 150 manns að því er fram kemur í tilkynningunni. Nú þegar hefur verið ráðið í allar helstu stöður tengdar þeim breytingum sem verða í kjölfar þess að WOW air verður með sitt eigið flugrekstrarleyfi.
Frá með næsta vori verður WOW air með fjórar Airbus A320 vélar og mun bjóða upp á 520 þúsund sæti til og frá Íslandi.