Skilyrta skuldabréfið verður 92 milljarðar

Landsbankinn skuldar þrotabúi gamla bankans um 314 milljarða í gjaldeyri.
Landsbankinn skuldar þrotabúi gamla bankans um 314 milljarða í gjaldeyri. mbl.is/Hjörtur

Virði skilyrta skuldabréfsins sem nýi Landsbankinn mun gefa út til þrotabús gamla Landsbankans (LBI) verður 92 milljarðar króna. Allur eignahlutur þrotabúsins mun því renna til ríkisins við útgáfu bréfsins. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og slitastjórn gamla Landsbankans munu í dag skrifa undir samkomulag um endanlegt uppgjör á virði eigna milli Landsbankans og LBI. 

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins gera skilmálar skuldabréfsins ekki ráð fyrir neinum breytingum á endurgreiðslum frá því sem um var samið í árslok 2009. Því þarf Landsbankinn að byrja að greiða ársfjórðungslegar afborganir af skilyrta skuldabréfinu – í samtals fimm ár – frá og með apríl á næsta ári. Samtals munu afborganir af skuldabréfinu nema ríflega 18 milljörðum strax á næsta ári.

Afborganir af stóra erlenda skuldabréfinu, sem var tæplega 222 milljarðar króna í bókum Landsbankans um síðustu áramót, hefjast hins vegar ári síðar. Áætlaðar afborganir og vaxtagreiðslur Landsbankans í gjaldeyri vegna skuldabréfanna eru um 73 milljarðar króna árið 2015.

Starfsmenn gætu fengið 4,5 milljarða hlut

Við útgáfu skilyrta skuldabréfsins, sem er í erlendri mynt, mun þrotabú LBI afhenda allan eignarhlut sinn í Landsbankanum – 18,7% – til ríkisins, að undanskildum allt að 2% hlut sem getur runnið til starfsmanna. Miðað við bókfært eiginfjárvirði bankans um síðustu áramót er sá hlutur metin á um 4,5 milljarða króna.

Sérfræðingar Deloitte í Bretlandi hafa að undanförnu unnið að því að leggja mat á virði þeirra eigna sem liggja að baki skilyrta skuldabréfinu. Virði skilyrta skuldabréfsins réðst af endurheimtum af tilteknu lánasafni sem Landsbankinn yfirtók af gamla Landsbankanum – annars vegar svonefndar Pegasus eignir sem eru kröfur á stór fyrirtæki og hins vegar Pony eignir sem eru kröfur á lítil og meðalstór fyrirtæki. Samtals var um að ræða 18 skilgreindar eignir.

Við síðustu áramót var skilyrta skuldabréfið bókfært á ríflega 87 milljarða króna í ársreikningi Landsbankans. Sérfræðingar Deloitte hafa hins vegar nú komist að þeirri niðurstöðu að undirliggjandi eignir skilyrta bréfsins væru meira virði – en bréfið gat hæst orðið 92 milljarðar króna.  

Tilkynning á vef Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK