Innovit og Klak nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins hafa sameinast í eitt félag undir nafninu Klak Innovit. Eigendur félagsins eru Nýherji, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Samtök atvinnulífsins auk sex einstaklinga sem allir eiga innan við 5% hlut. Þetta var samþykkt á aðalfundi félagsins í gær.
„Við vonumst til þess að þetta geti orðið mun sterkara og öflugra en áður. Fengum smjörþefinn af því að vinna saman í Startup Reykjavík síðasta sumar og nú langar okkur að einbeita okkur að því að verða eins öflugur málsvari og unnt er fyrir sprota- og frumkvöðlastarfsemi hér á Íslandi. Frá fyrsta skrefi yfir í fjárfestingar, markaðs- og sölumál,“ segir Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit.
Kristján mun taka við sem framkvæmdastjóri sameinaðs félags, en Eyþór Ívar Jónsson, sem hafði haft yfirumsjón með Klakinu, sneri sér að öðrum verkefnum fyrr í vetur.
Hann segir að sem stærri eining nái félagið að hafa betri sýn á frumkvöðlastarf hérlendis. Yfir 100 ráðgjafar eru tengdir félaginu og segir hann að stundum hafi verið unnið að svipuðum verkefnum hjá félögunum tveimur. Með sameiningunni vonast Kristján til þess að fókusinn verði meiri og auðveldi uppbyggingu verkefna.
Bæði verður lögð áhersla á opna viðburði sem og lokaðar keppnir eða frumkvöðlavettvang að sögn Kristjáns. „Áherslan verður sú að okkur langar að verða hraðall fyrir frumkvöðlasamfélagið í heild sinni. Þeir sem vilja tengja sig við félagið og taka þátt í viðburðum geta það, en viðburðirnir verða misjafnir. Sumir eru þess eðlis að allir geta tekið þátt, eins og í Gullegginu, en á öðrum, eins og Startup Reykjavík, verða ákveðin verkefni valin til að halda áfram.“
Nokkur sprotafyrirtæki hafa á síðustu misserum haldið utan með hugverk sín og í leit að fjármagni. Aðspurður hvort sameinað félag muni beita sér sem hagsmunasamtök meðal annars í bættu umhverfi fyrir sprotafyrirtæki segir Kristján að það sé örugglega eitthvað sem stefnt sé að. „Við munum fara sem hagsmunafélag að leysa úr þeim hnútum sem við teljum að séu til staðar á hverjum tíma fyrir sig.“