Farfuglaheimilið Loft er nýjasta viðbótin í fjölskyldu Farfugla á höfuðborgarsvæðinu, en það opnaði dyr sínar fyrir gestum í dag. Loft er hvort tveggja vistvænt farfuglaheimili og kaffihús með útsýnissvölum yfir Þingholtin, en hostelið er staðsett að Bankastræti 7 og er pláss fyrir 100 gesti þar.
Auk gistiaðstöðunnar, sem er á annarri og þriðju hæð hússins, verður kaffihús og bar á fjórðu hæðinni sem verða opin fyrir gesti og gangandi. Í tengslum við kaffihúsið er aðstaða til tónleikahalds og annarra viðburða. Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri farfuglaheimilanna í Reykjavík, segir í samtali við mbl.is að sótt verði í samstarf við mennta- og háskólanemendur til að vera samfélagslegur vettvangur til uppákoma, tónleikahalds og myndakvölda.
Á nýja farfuglaheimilinu verður, líkt og á farfuglaheimilunum í Laugardal og á Vesturgötu, lögð áhersla á vistvænan rekstur og undirbúningur að umsókn um Svansvottun er hafinn.
Undirbúningur fyrir opnun farfuglaheimilisins hefur staðið yfir í um 2 ár, en Sigríður segir að þegar þau hafi séð þetta húsnæði hafi þau verið viss um að það væri hið rétta. Nú þegar rekur félagið Farfuglar tvö hostel á höfuðborgarsvæðinu, eitt í Laugardal, sem hefur verið starfrækt síðan 1989 og annað á Vesturgötunni sem opnaði fyrir fjórum árum.
Sigríður segir að hluti gestanna leiti að miðbæjarstaðsetningu og því hafi Vesturgatan verið opnuð á sínum tíma. Það húsnæði sé hins vegar ekkert mjög stórt og því hafi verið ákveðið að bæta við og að Bankastrætið sé „mjög miðsvæðis og í hringiðunni“. Þá sé útsýnið af hæðinni mjög heillandi.
Farfuglar er rekið sem sjálfseignarstofnun, en allur hagnaður félagsins fer í aukna uppbyggingu og er félagið hluti af HI Hostels félaginu sem er með farfuglaheimili um allan heim.
Aðspurð um þá miklu uppbyggingu sem hafi verið í ferðaþjónustu hér á landi á síðustu árum og vandamál sem gætu skapast af því segir Sigríður að hún hafi ákveðnar áhyggjur ef stækkunin verði of hröð og án þess að menn passi sig. Aftur á móti sé vel hægt að standa undir þeirri fjölgun sem nú hafi orðið. Hún segir þó að mikið sé í húfi um að Íslendingar séu samkvæmir sjálfum sér og standi undir nafni sem vinalegasta þjóðin, eins og kom fram í nýlegri könnun.