Gjaldþrot félagsins Mótormax ehf. nam rúmum 750 milljónum samkvæmt auglýsingu í Lögbirtingablaðinu í dag. Lýstar kröfur í búið voru tæplega 908 milljónir, en 155 milljónir fengust upp í veðkröfur. Ekkert var greitt upp í almennar kröfur að fjárhæð 752,8 milljónir.
Félagið rak stórverslun í Reykjavík sem seldi meðal annars fjórhjól, götuhjól, sæþotur, hjólhýsi, húsbíla, fellihýsi, hraðbáta og annan mótorsportvarning. Það var í eigu Magnúsar Kristinssonar, útgerðarmanns og fyrrverandi eiganda Toyota á Íslandi.
Mál Mótormax fékk mikla umfjöllun í kjölfar málaferla sem Landsbankinn höfðaði á hendur búinu. Í máli bankans gegn þrotabúinu snerist deilan um lán, sem Landsbankinn taldi að fæli í sér skuldbindingu í erlendri mynt. Í febrúar 2011 dæmdi héraðsdómur að lánið væri í íslenskum krónum en gengistryggt og þar með ólöglegt. Í júní sama ár staðfest Hæstiréttur dóm héraðsdóms.