Kynnir sjávarútveginn fyrir unglingum

Heiðdís sýnir nemendum Penzim, heilsu- og húðvörur sem unnar eru …
Heiðdís sýnir nemendum Penzim, heilsu- og húðvörur sem unnar eru úr meltingarensímum þorsksins.

Síðastliðinn vetur hefur Íslenski sjávarklasinn staðið fyrir kynningum á íslenskum sjávarútvegi í grunnskólum landsins og hafa um eitt þúsund nemendur fengið að fræðast um sögu sjávarútvegsins, framleiðsluferli og þá hátæknigrein sem greinin er orðin í dag. Þá er þeim sagt frá hinum ýmsu starfstéttum sem tengjast sjávarútveginum á mismunandi hátt. Meðal annars er bent á Penzim, heilsu- og húðvörur sem unnar eru úr meltingarensímum þorsksins og leðurvinnslu þar sem unnið er með fiskiroð.

Heiðdís Skarphéðinsdóttir, nemandi í sjávarútvegfræði við Háskólann á Akureyri, hefur unnið að verkefninu frá því á síðasta ári. Hún segir að hugmyndin hafi upphaflega komið frá Þór Sigfússyni, forstöðumanni sjávarklasans. Hún hafi svo verið fengin í verkefnið og síðasta sumar hafi farið í setja verkefnið á fót og kynna það fyrir fyrirtækjum og skólum. Um haustið hafi svo Suðurnesin verið tekin fyrir, en eftir áramót voru Vestmannaeyjar, Garðabær og Kópavogur heimsótt.

Allir unnið í fiski í Vestmannaeyjum

„Þekkingin hefur verið mjög misjöfn eftir svæðum. Í Vestmannaeyjum var þekkingin mjög mikil og við spurðum hversu margir hefðu unnið í fiski og það réttu allir upp hönd. Á meðan er allt önnur saga hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Heiðdís. Hún segir muninn ekki til kominn vegna skorts á áhuga, heldur vegna skorts á framboði af vinnu í sjávarútvegi fyrir unglinga á höfuðborgarsvæðinu.

Hún segir að það sem hafi verið skemmtilegast sé hversu meðvitaðir unglingarnir séu um sjávarútveginn. Segir hún að pólitískar spurningar komi oft á tíðum fram hjá þeim, þó að það sé ekki hluti af kynningunni, en það sýni áhuga unglinganna vel. Þá hafi kynningarnar opnað augu nemendanna fyrir því hversu fjölbreyttur iðnaður þetta sé og hversu mörg tækifæri séu í hátæknigreinum tengdum sjávarútvegi.

Er í lagi að borða óléttu fiskana?

Margar skemmtilegar spurningar hafa komið fram í heimsóknunum og nefnir Heiðdís að meðal annars hafi hún verið spurð hvort það væri í lagi að borða „óléttu“ fiskana og hvort hægt væri að gera takkaskó úr fiskiroði.

Verkefnið er liður í átaki sjávarklasans um að efla meðvitund og vekja áhuga á sjávarútvegsiðnaðinum hjá nemendum á bæði grunn- og framhaldsskólastigi. Haldnar hafa verið um 30 kynningar í Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, á Suðurnesjunum og í Vestmannaeyjum. Undirbúningur á kynningum fyrir næsta vetur er nú þegar hafinn, en stefnt er að því að halda kynningar í Reykjavík og á Akureyri.

Hægt er að nýta þorskafurðir í ýmsar framleiðsluvörur, eins og …
Hægt er að nýta þorskafurðir í ýmsar framleiðsluvörur, eins og þessi mynd sýnir. Meðal þess er fiskileður, heilsuvörur og kavíar.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK