Tilgangur hlutafjáraukningar Exista árið 2008 var að sýna stuðning stærstu hluthafanna á erfiðum tímum en ekki að þynna hlut bankanna í félaginu. Þetta sagði Hildur Árnadóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Exista í fyrirtöku á máli sérstaks saksóknara gegn Lýði Árnasyni og Bjarnfreði Ólafssyni, lögmanni, þar sem þeir eru ákærðir fyrir stórfelld brot á hlutafélagalögum.
Hildur, sem ber vitni í málinu, sagðist kannast við lög þess efnis að ekki væri leyfilegt að auka hlutafé þar sem nýtt fé væri undir nafnverði bréfa nýrra bréfa, en að hún liti ekki þannig á málið. Sagði hún að þarna væri verið að skipta á hlutum í tveimur félögum og að verðmatið á Exista hafi verið eðlilegt.
Aukningin átti sér stað þannig að félagið BBR ehf., sem er í eigu Lýðs og Ágústs Guðmundssona, skipti á bréfum í Exista fyrir bréf í Kvakki ehf., en Kvakkur var einnig í eigu BBR ehf. Með þessu eignaðist BBR meirihluta í Exista en hlutur Kaupþings banka fór úr um 45% niður í um 10%. Nafnverð hlutarins í Exista var 50 milljarðar en nafnverð hlutanna í Kvakki var 1 milljarður og telur sérstakur saksóknari það vera brot á fyrrgreindum lögum.
Lýður og Bjarnfreður eru í ákærunni einnig sakaðir um að hafa vísvitandi skýrt rangt og villandi frá hækkun á hlutafé Exista þegar send var tilkynning til hlutafélagaskrár 8. desember 2008. Þar komi fram að hækkun hlutafjár hafi að fullu verið greidd til félagsins, en peningarnir komu aldrei inn í reksturinn.
Þá var í dag vitnað til tveggja endurskoðanda hjá Deloitte, þeirra Hilmars A. Alfreðssonar og Þorvarðar Gunnarsson, sem er framkvæmdastjóri félagsins. Sögðust þeir ekki getað staðfest hækkunina og að það hefði verið skýrt að ekki væri hægt að skrifa upp á hana.
Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, las einnig upp úr skýrslu sem tekin var af Bjarnfreði, en þar kom fram að lögfræðistofan Logos, þar sem hann vinnur, hafi ekki viljað gefa lögfræðilegt álit á málinu. „Við sögðum að það gengi ekki að greiða 1 milljarð fyrir 50 milljarða hluti,“ var haft eftir Bjarnfreði.