„Við erum með litla sæta útgáfu af gamla Íslandi.“ Þetta segir Þórarinn Stefánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Mobilitus hugbúnaðarfyrirtækisins, en hann gagnrýnir fyrirkomulag og það umhverfi sem Seðlabankinn hefur byggt upp með gjaldeyrishöftunum. Segir hann að ef neitun komi á beiðni um fjármagnsflutninga sé nauðsynlegt að þekkja mann sem þekkir mann í Seðlabankanum sem samþykkir að ástæða flutningana sé góð og gild.
Þórarinn er gestur í þættinum Viðskipti með Sigurði Má, en hann ræðir meðal annars um hvernig höftin komu í veg fyrir að hann myndi halda móðurfélagi Mobilitus hér á landi og þannig greiða skatta hér á landi.
Til að undirstrika vandamál fyrirtækja sem eru í uppbyggingarferli og áhrif haftanna á þau nefnir hann óvissuna með þau: „Til að setja upp fjárfestingahæft félag erlendis þá þarf hugverkarétturinn að fara út. Samkvæmt núgildandi reglum er það bannað nema þú fáir undanþágu og það er ekki ljóst hvað þú þarft að gera til að fá undanþágu,“ segir Þórarinn.