„Fyrsta skipti sem ég er að gera eitthvað sem mamma skilur,“ segir Þórarinn Stefánsson, framkvæmdastjóri og stofnandi Mobilitus, en hann rekur í dag fyrirtækið sem þjónustar 30 þúsund fyrirtæki og einstaklinga sem halda viðburði. Meðal þess sem Mobilitus gerir er að sjá um miðasölu, en að meðaltali fara um 75 beiðnir gegnum síðuna þeirra á hverri sekúndu. Þá var velta í gegnum kerfi fyrirtækisins 3,2 milljarðar í síðasta mánuði einum og sér.
Þórarinn segir að þau séu í þeirri draumastöðu að vera með samning við langstærsta söluaðila miða í heiminum og það auki mikið veltuna. Ætlunin sé svo að ná að auka veltuna þrefalt á næstunni með því að finna núverandi vöru stærra markaðssvæði og með aukinni þróun, svo sem með að bæta við sölu tilheyrandi varnings og aukinnar markaðssetningar viðburðanna á netinu.
Þórarinn er gestur í þættinum Viðskipti með Sigurði Má, þar sem hann ræðir um hvernig fyrirtækið byggðist upp og útskýrir af hverju það hafi verið gæfuspor að fá ekki fjárfestingu frá Frumtaki á sínum tíma.