Töluverðar framkvæmdir eru framundan hjá Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar, innanlandsflugvalla og Fríhafnarinnar, á næstu misserum. Gert er ráð fyrir um 3 til 4 milljarða fjárfestingum á næstu tveimur árum og að um 100 manns muni vinna við framkvæmdirnar að jafnaði. Þá er áætlað að framtíðastörfum sem rekja megi til stækkunarinnar muni fjölga um 30 til 60. Þetta segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, en aðalfundur félagsins fór fram í dag.
Tekjur Isavia jukust um 11,4% á síðasta ári miðað við árið á undan, en velta var um 18,4 milljarðar. Þá var hagnaður félagsins rúmar 700 milljónir. Af þessu var veltan í Fríhöfninni um 7 milljarðar og hagnaður hennar 2,5 milljarðar. Ákveðið var á aðalfundinum að verja öllum arðgreiðslum til aukningar á eigin fé.
Í ræðu sinni á aðalfundi félagsins sagði Þórólfur Árnason, stjórnarformaður, að miklar breytingar væru framundan í Leifsstöð. Meðal annars ætti að gera endurbætur á suðurbyggingunni til að hraða afgreiðslu í vegabréfaeftirliti, setja fleiri sæti á biðsvæðin og koma upp nýrri fríhafnarverslun. Við þetta bætist bættur vopna-, farangurs- og skimunarbúnaður svo afgreiða megi fleiri á helstu álagstímum.
Á síðustu árum frá hruni hafa fjárfestingar verið undir afskriftum, en það þýðir að ekki sé settur nægur peningur í framkvæmdir til að viðhalda verðmæti eignanna. Hafði munað um hálfum milljarði á því hvert ár. Þórólfur sagði þessa tíma liðna. „Höfum ekki fjárfest mikið síðustu árin, nú er komið að því. Þessi aukni hópur sem er að koma inn kallar á fjárfestingar.“
Þá er áætlað að setja um 500 milljónir í slitlagsendurnýjanir, 800 milljónir í þjónustuhús við miðju flugvallarins, sunnan við flugstöðina og hlöð fyrir flugvélar. Björn sagði í samtali við mbl.is að nú þegar væri hafist handa við endurbæturnar innandyra, en að farið yrði í hlaðið og þjónustuhúsið seinna á árinu.
Heildarfjölgun starfa vegna framkvæmdanna er að sögn Björns um 100 manns yfir allan framkvæmdatímann, en hann gerir ráð fyrir að með því að auka fjölda hliða um 2, þá verði hægt að fjölga afgreiðslu flugvéla um rúmlega 10% á mesta annatíma. Þetta skili sér í um 30 til 60 ný störf til framtíðar.
Hann tók þó fram að þetta væri aðeins stækkun sem myndi duga næstu 2 árin, en stóra spurningin væri hvernig bregðast ætti við viðvarandi 10% aukningu farþega næstu 3-5 árin.
Gert er ráð fyrir að farþegum sem komi hingað til lands muni fjölga um rúmlega 70 þúsund á þessu ári og ná því að verða yfir 1 milljón, en þeir voru 992 þúsund á síðasta ári. Þegar tekið er mið af heildarfjölda farþega um flugstöðina er gert ráð fyrir að fjölgunin verði um 220 þúsund, en þá er tekið inn í fjölgun af þeim sem koma aðeins gegnum flugstöðina án þess að stoppa á Íslandi.