„Við höfum búið til ný iðnverkefni með samstarfsaðilum og stígið ákveðin ný skref með því að Íslendingar komi inn og fari í eitthvað nýtt, annað en álbræðslu.“ Þetta segir Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Árborgar og framkvæmdastjóri Strokks Energy, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má. Félagið rekur í dag Becromal verksmiðjuna á Akureyri og opnar fljótlega stálverksmiðju á Grundartanga.
Eyþór segir að fleira sé í farvatninu hjá Strokki, meðal annars kísilverkefni fyrir norðan. Þá sé einnig horft til uppbyggingar á ilrækt og gagnaverum. Hann segir nauðsynlegt að skoða fleiri tækifæri til að skapa hér störf og gjaldeyristekjur. „Þetta verkefni er eitt af því að búa til hér eitthvað nýtt, skapa gjaldeyristekjur og nýta orkuna í að fjölga vörum,“ segir hann um stálverksmiðjuna.