„Aukningin hefur verið gríðarleg, 15-20% og ef fram heldur sem horfir er ekkert sem bendir til annars en að við lok þessa áratugar, 2020, gætum við verið farin að slaga nálægt tveggja milljóna markinu eins og forsetinn spáði.“ Þetta segir Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, en hann er gestur í þættinum Viðskipti með Sigurði Má.
Segist Edward ekki telja þetta fráleita hugmynd og að aukningin geti vel haldið áfram að aukast hér eins og verið hefur. Segir hann að ytri þættir, frekar en innri þættir, muni verða helstu áhrifavaldar varðandi aukninguna og bendir á að margar smáeyjar taki við margföldum íbúafjölda á hverju ári. Það sé því frekar efnahagsástand erlendis sem ráði för.
Ef þessi fjölgun gengur í gegn segir Edward að huga þurfi sérstaklega að annarskonar ferðaþjónustu, til jafns við náttúruskoðun- og náttúruupplifun eins og er aðalaðdráttaraflið í dag. Þá sé mikilvægt að opna fleiri hlið inn í landið, til dæmis Seyðisfjörð og að bæta við flugleiðum með því að hefja beint flug til fleiri flugvalla.