New York-stemning við gömlu höfnina

Ásta Guðrún Óskarsdóttir og Ylfa Helgadóttir.
Ásta Guðrún Óskarsdóttir og Ylfa Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum búnar að vinna saman í sex ár. Það hafði gengið svo vel að okkur langaði að opna stað saman. Við vorum að leita að húsnæði í svolítinn tíma þegar við duttum niður á þetta hérna við gömlu höfnina,“ segir Ásta Guðrún Óskarsdóttir, annar eigenda og yfirþjónn veitingastaðarins Kopars sem nýlega var opnaður við gömlu höfnina í Reykjavík.

„Við gerðum rosalegar breytingar á staðnum og fengum hjálp frá mörgum aðilum og ber þar helst að nefna Leif Welding, sem hefur verið í þessum bransa um nokkurt skeið. Við opnuðum efri hæðina þar sem áður hafði einungis verið geymsla. Við vorum báðar með ákveðnar hugmyndir um það hvernig staðurinn átti að vera og við áttuðum okkur fljótt á því að þær voru svipaðar,“ segir Ylfa Helgadóttir, hinn eigandi staðarins og matreiðslumeistari með meiru. Staðurinn er í anda New York en þær stöllur fóru einmitt þangað í innblástursferð áður en ráðist var í verkið.

„Við ætlum að reyna að skapa svolitla kósístemningu hérna. Þetta á ekki að vera stíft og stirt. Þetta er allt saman voða afslappað,“ segir Ylfa en staðinn prýða stórir chesterfieldsófar og múrsteinsveggir.

Trillukarlar bæta og kæta

Húsið sem veitingastaðurinn tilheyrir var eitt sinn verbúð og í næsta nágrenni við Kopar er einmitt ein slík.

„Það er rosalega gaman að fylgjast með trillukörlunum í verbúðinni hérna við hliðina á. Þeir eru þeir einu eftir á þessu svæði og ætla ekki að láta undan,“ segir Ylfa.

„Þeir byrja hérna eldsnemma og eru hörkuduglegir. Þetta eru flottir karlar. Þetta er svolítið partur af leikritinu að hafa þá hérna. Þeir gefa höfninni ósvikinn blæ. Við erum í miklum samskiptum við þá,“ bætir Ásta við.

„Svo eru þeir með sögur af því hvernig þessi staður var og hvernig hann hefur breyst. Sumar sögur eru þó fallegri en aðrar,“ segir Ylfa sposk á svip. Þær sammælast um að það sé óhjákvæmilega sjávarréttaþema á Kopar sökum nálægðar við sjóinn. Nafnið Kopar hefur einnig vakið athygli og samkvæmt Ylfu er það engin tilviljun.

„Kopar er elsti notaði málmur í heimi. Þar sem staðurinn okkar er í svolítið grófum stíl, með múrsteinsveggi og ryðgaða járnstiga, fannst okkur þetta nafn sniðugt. Svo er mikil tenging við skipin hérna í höfninni en í þeim er mikill kopar. Okkur þótti því við hæfi að nefna staðinn eftir þessum góða málmi,“ segir Ylfa.

Eins og ein stór fjölskylda

„Þegar maður er að vinna frá tíu á morgnana til tvö á nóttunni með sama fólkinu þarf fólki að koma ágætlega saman. Við eyðum í raun meiri tíma hérna en heima hjá okkur. Þetta er því bara eins og ein stór fjölskylda og fólki þarf að líða þannig,“ segir Ásta og Ylfa tekur undir.

„Við skiptum okkur endalaust hvert af öðru. Það þarf að vera samvinna. Það þurfa allir að vita hvernig starfsemin fer fram í eldhúsinu og inni í sal og við höfum jafnvel gengið svo langt að skipta um hlutverk til að fólk skilji og beri virðingu fyrir starfi hvað annars. Það er oft álag og menn missa hluti út úr sér sem eiga kannski ekkert við. Maður getur ekkert eytt tíma í það að afsaka sig á vinnutíma, þetta er allt gert upp eftir vakt. Það þýðir ekkert að vera hörundsár í þessum bransa,“ segir Ylfa og brosir. Hún bætir því við að það hafi verið auðvelt að ráða í flestar stöðurnar nema í kokkastöðurnar og segir hún skort á fólki í þeirri grein. Þær segja framtíðina vera óráðna gátu og að allt geti gerst.

„Þetta er langhlaup og við stefnum að því að vera hérna í framtíðinni. Það á ýmislegt eftir að gera. Við ætlum að hafa hér skjólvegg og hitalampa fyrir utan þar sem fólk getur setið og fengið sér kokteil. Við byrjum örugglega bara á því að opna þennan stað og svo sjáum við til,“ segja þær að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK