Töluverð fækkun hefur verið í farþegaflugi innanlands frá í apríl á síðasta ári. „Við tengjum það breytingum á opinberum gjöldum þá, það voru miklar hækkanir á lendingargjöldum og farþegagjöldum sem við höfðum ekki tök á öðru en að setja út í verðlagið,“ segir Árni Gunnarsson, forstjóri Flugfélags Íslands, í þættinum Viðskipti með Sigurði Má.
Árni segir að samdrátturinn hafi verið um 7-8% á fyrstu fimm mánuðum þessa árs. Það vegi þó aðeins á móti að fjölgun hefur verið í farþegaflugi til Grænlands, en það nái þó ekki að bæta tekjutapið á innanlandsfluginu.
„Við erum að upplifa svipaða fækkun og eftir bankahrunið,“ segir Árni, en félagið hefur dregið úr sætaframboði á öllum leiðum til að mæta þessum samdrætti. Með því hefur náðst að bæta sætanýtingu, en engu að síður er það ekki nóg til að skila betri afkomu.
Hann segist gera ráð fyrir að fjöldi farþega muni áfram fara vaxandi, eins og hefur verið síðustu áratugina. Aftur á móti sé reksturinn sveiflukenndur og fer það mikið eftir efnahagsástandinu, eins og reynslan frá síðustu árum sýni. Segir hann því mikilvægast fyrir félagið að efnahagslífið taki við sér.