„Þetta er aðili sem hefur stýrt fjölda fyrirtækja í gjaldþrot og nýtt sér glufu í tollalögunum,“ segir Bjarni Ákason, eigandi Skakkaturns ehf. Á morgun verður tekið fyrir mál til staðfestingar á lögbanni félagsins gegn 1949 ehf. og forsvarsmanni þess.
Skakkiturninn er umboðsaðili Apple á Íslandi og hefur sem slíkur einkarétt á að flytja inn vörur fyrirtækisins frá Bandaríkjunum, en vefsíðan Buy.is hefur boðið vörur Apple á mun lægra verði en gengur og gerist, og undirboðið Apple í Bandaríkjunum, að sögn Bjarna.
„Hans módel byggir á að flytja inn vöruna frá Bandaríkjunum, selja hana ódýrt og greiða aldrei skattinn. En hann er samt að græða. Vörurnar seldi hann ódýrar en Apple í Ameríku á einhverjum tímapunkti. Þetta byggist út á að hann borgar byrgjunum og fer svo í þrot. Þetta gengur upp hjá honum því tollurinn gefur tollakrít þannig að þú þarft ekki að greiða tolla fyrr en tveimur mánuðum síðar. Þá er bara komin ný kennitala og leikurinn heldur áfram,“ segir Bjarni.
„Þetta er eiginlega niðurgreitt af ríkinu. Ég veit ekki betur en að þessi maður sé bæði til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra og sérstökum saksóknara. Þetta erum við að keppa við,“ segir Bjarni. „Svo gengur þetta ekki gagnvart viðskiptavininum sem á rétt á tveggja ára ábyrgð.“
Vefsíðunni Buy.is segir Bjarni að maðurinn haldi svo úti á enn annarri kennitölu. „Mér skilst að hann sé orðinn „persona non grata“ hjá tollinum.“