Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hefur auglýst til sölu félagið HTO ehf. sem á og rekur eignirnar í Höfðatorgi við Borgartún 12-14 og Katrínartún 2 í Reykjavík.
HTO er í eigu Íslandsbanka og Péturs Guðmundssonar, forstjóra Eyktar, og tengdra aðila. Íslandsbanki á 72,5% hlutfjár en Pétur 27,5% hlutafjár. Að sögn Narfa Þ. Snorrasonar, hjá fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka er allt hlutafé HTO til sölu en ekki hafa verið gefnar upp neinar verðhugmyndir á félaginu. Bókfært virði allra eigna HTO var samkvæmt ársuppgjöri Íslandsbanka fyrir síðasta ár 14,967 milljarðar króna.
Heildarstærð eigna félagsins er um 57 þúsund fermetrar að meðtöldum bílakjallara. Nýting húsanna er góð og leigutakar eru í fjölbreyttum rekstri, segir Narfi en nánast allt húsnæði félagsins er í útleigu.
Tilboðsfrestur rennur út þann 3. júlí næstkomandi.