Efast um lögmæti rannsóknar

Vincent Tchenguiz.
Vincent Tchenguiz. Tom Stockill.

Efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar (SFO) ætlar að endurskoða hvort rannsókn á breska kaupsýslumanninum Vincent Tchenguiz hafi verið lögmæt en Vincent Tchenguiz og Robert bróðir hans sættu rannsókn SFO í tengslum við rannsókn á lykilstarfsmönnum Kaupþings.

Þetta kom fram í yfirlýsingu frá SFO þegar málið var tekið fyrir í hæstarétti Bretlands fyrr í vikunni, samkvæmt frétt Financial Times í dag.

Vincent Tchenguiz hefur höfðað skaðabótamál á hendur SFO vegna ólöglegra húsleita og haldlagningu í tengslum við rannsókn á falli Kaupþings. Krefst hann þess að fá greiddar hundruð milljóna punda í bætur.

SFO hætti rannsókn sinni á Tchenguiz og bróður hans Robert Tchenguiz eftir að dómstóll úrskurðaði að húsleitirnar hefðu verið ólöglegar.

Goldsmith lávarður, lögfræðingur Tchenguiz, sem var ríkissaksóknari Bretlands til ársins 2007 og þar af leiðandi yfirmaður SFO, segir að það sé eiginlega varla hægt að segja það skýrar að hætta verði við rannsóknina í heild.

<strong>Byggt á upplýsingum frá Grant Thorton</strong>

Tchenguiz bræður telja að húsleitin og handtökuskipunin sem gefin út var á hendur þeim í tengslum við rannsókn SFO í mars 2011 hafi byggt á röngum upplýsingum.

Upplýsingarnar komu frá Grant Thornton, skiptastjóra Kaupþings á þessum tíma. Upplýsingarnar sem komu frá endurskoðunarfyrirtækinu túlkaði SFO sem svo að  Vincent Tchenguiz hefði ekki gefið upp réttar upplýsingar varðandi 100 milljón punda lán sem hann fékk hjá Kaupþingi. SFO greindi hins vegar ekki frá því, þegar óskað var eftir handtökuskipun hjá dómara, að á sama tíma ætti Grant Thorton í dómsmáli við Vincent Tchenguiz.

Kom fram í máli Goldsmith við réttarhöldin í vikunni að dómarinn hefði átt að fá upplýsingar um að heimildarmaðurinn væri verulega blandaður inn í málið.

<strong>Lloyds Bank vill yfirráð yfir fasteignasafni</strong>

En samkvæmt fréttum Financial Times í dag er þetta ekki eina málið sem Vincent Tchenguiz tengist sem er tekist á um í réttarsölum Bretlands því Lloyds Bank reynir nú að fá yfirráð yfir fasteignasafni hans.

Ekki hefur tekist að ná samkomulagi á milli Vincent Tchenguiz og bankans um hvernig hann ætli að endurgreiða bankanum 230 milljónir punda sem hann skuldar. Hefur Lloyds bankinn farið fram á það að KPMG verði skipað skiptastjóri yfir fasteignasafninu en yfir 50 þúsund eignir eru innan þess.

Að sögn Vincent Tchenguiz eru tengsl á milli rannsóknar SFO og erfiðleika hans við að endurfjármagna fasteignasafnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK