„Umhugað um að halda einokunarstöðu“

Merki Apple
Merki Apple AFP

„Þetta félag sem epli.is setti lögbannsmálið í gang gegn heitir í dag istore ehf., en ekki 1949. Ég á annað félag með sama nafni, 1949 ehf. Það er félag sem sér um alla ábyrgðarþjónustu fyrir Buy.is,“ segir Friðjón Björgvin Gunnarsson, eigandi Buy.is. Hann segir Buy.is ekki vera rekið á íslenskri kennitölu, heldur sé það bandarískt fyrirtæki.

Friðjón hafði samband við mbl.is í kjölfar umfjöllunar um lögbannsmál Skakkaturns gegn istore ehf., áður 1949 ehf., og Friðjóni sjálfum. Það skal tekið fram að félagið istore ehf tengist ekki á neinn hátt versluninni iStore í Kringlunni. Eigandi þeirrar verslunar, Sigurður Þór Helgason, segir að nafnabreyting 1949 ehf. í istore ehf. hafi verið kærð til Neytendastofu.

„Ástæðan fyrir því að Buy.is er í dag rekið af bandarísku fyrirtæki er sú að Skakkiturninn setti í gang þetta lögbannsmál með það að markmiði að stöðva endanlega innflutning minn og endursölu á Apple vörum á Íslandi og tryggja þar með algera einokun á Apple markaðnum,“ segir Friðjón.

Skakkiturn ehf. ekki Apple á Íslandi

„Það er enginn annar smásöluaðili með eigin innflutning á Apple vörum. Það kaupa allir frá Skakkaturni, allavega þeir sem eru þeim þóknanlegir. Ég er með minn lögmann í því að verja istore ehf. í þessu lögbannsmáli, og þar er að mínu mati skýr aðildarskortur. Skakkiturn ehf. er ekki Apple inc. og hefur enga heimild eða leyfi Apple inc. til þess að höfða dómsmál í þeirra nafni á Íslandi.  Aðildarskortur í dómsmáli leiðir að ég held yfirleitt til sýknu,“ segir Friðjón.

„Skakkiturninn er dreifingaraðili án einkaréttar (e. non-exclusive distributor) fyrir Apple og má til dæmis ekki reka smásöluverslun, heldur bara netsölu samkvæmt þessum samningi,“ segir Friðjón. 

„Þeir reka netverslunina epli.is og tvær smásöluverslanir undir sama nafni. Samkvæmt þessum samningi þá er þessi smásöluverslun bönnuð. Skakkiturninn má samkvæmt sama samningi til dæmis aðeins taka þátt í stórum útboðum eins og hjá ríkinu, en ef litlir skólar úti á landi eru að leita að 10 til 20 iPad-spjaldtölvum, þá eiga þeir að vísa á smásöluaðila, af því að þeir eru dreifingaraðili. Ég er hins vegar ekki klár á hvort þeir séu að reka þessar verslanir í Smáralindinni og Laugarvegi á annarri kennitölu,“ segir Friðjón.

„Þegar ég byrjaði með Buy.is árið 2009 þá fór Bjarni Ákason [eigandi Skakkaturns ehf. innsk. blm] strax að senda mér lögfræðibréf og reyndi með öllum tiltækum ráðum að stöðva mig, þrátt fyrir að ég hefði óskað óformlega eftir samstarfi við Skakkaturn ehf,“ segir Friðjón.

Friðjón segir Skakkaturn strax byrjað að reyna að koma í veg fyrir að hann reyndi að flytja inn vöruna frá Bandaríkjunum til endursölu á Íslandi. „Hann meira að segja neitaði að sinna ábyrgðarþjónustu við viðskiptavini mína eftir að hafa þó fullyrt það að spjallborði á vefsíðu að allir viðskiptavinir Buy.is fengju ábyrgðarþjónustu hjá verkstæði Skakkaturns. Apple er með eins árs ábyrgð um allan heim á öllum sínum búnaði. Þannig að það er alveg sama í rauninni hvar viðskiptavinurinn kaupir Apple-vöruna sína, hann á að geta gengið inn á hvaða viðurkennda Apple-verkstæði sem er og fengið gert við hana,“ segir Friðjón.

iPhone ekki dreift á Íslandi

„Ísland er hins vegar ekki á lista Apple yfir lönd sem mega selja iPhone. Hann er ekki formlega seldur hér. Skakkiturn ehf. kaupir iPhone gegnum þriðja aðila eins og allir aðrir en það er áhugavert að samkvæmt samningi sínum við Apple mega þeir það alls ekki. Allar vörur sem Skakkiturninn dreifir fyrir Apple, þær verður verkstæðið þeirra að þjónusta. Ég hins vegar kýs að beina mínum viðskiptavinum ekki þangað, því þeir fá þar frekar slæma þjónustu sem felst í því að þeir eru látnir greiða fyrir flutningsgjald á varahlutum til Íslands, sem er auðvitað alveg fáránlegt. Það er bara staðreynd. Þeir þurfa að bíða lengi og það er mun betra fyrir mig að lána mínum viðskiptavinum búnað meðan þeir bíða, ég sendi búnaðinn þeirra út til Bandaríkjanna þar sem gert er við hann eða honum skipt út, og svo kemur hann til baka,“ segir Friðjón.

„Svo kemur þessi umræða um fjölda fyrirtækja sem ég hef stofnað og hafa farið í þrot. Ég hef stofnað töluvert af fyrirtækjum í gegnum tíðina og gert mörg mistök í mínum rekstri.  Ég hef lært af því og sérstaklega þar sem Skakkiturn og einn söluaðili þeirra hafa verið duglegir að benda fjölmiðlum á þetta og nota þetta gegn mér í stað þess að lækka einfaldlega sína álagningu og bjóða landanum upp á sómasamlegt verð á Apple vörum.  Þegar Skakkiturn ehf getur boðið svipuð smásöluverð og Buy.is á Apple vörum, þá hættir Buy.is að selja Apple vörur. Þeir hafa kosið að fara í skítkast á mína persónu í stað þess að keppa við mig í verðum. Það er engin samkeppni, það kallast einfaldlega skítlegt eðli og einokunartilburðir,“ segir Friðjón.

„Umhugað um að halda einokunarstöðu“

„Þetta er stærra mál en Bjarni vill láta líta út fyrir að það sé. Honum er umhugað um að halda sinni einokunarstöðu. Í krafti stærðar sinnar fer hann af fullum krafti í alla þá sem ógna þessari stöðu. Hann getur ekkert sagt um innflutning frá Evrópu, en samt snýr þetta lögbannsmál að öllum innflutningi á Apple-vörum. Það stenst engin lög. En Evrópulöggjöfin segir að innflutningur á Apple-vörum frá Bandaríkjunum til endursölu í Evrópu sé á gráu svæði. Lögmenn eru ekki sammála um þetta, sérstaklega þegar kemur að tæmingu vörumerkjaréttar,“ segir Friðjón. Tæming vörumerkjaréttar felur í sér að eigandi vörumerkis er búinn að tæma rétt til að stjórna hverjir megi kaupa og selja vörur hans, því sama vara getur skipt margoft um hendur. Þegar vara er komin inn á markaðssvæði, í þessu tilviki EES, er eigandi vörumerkisins í reynd búinn að missa stjórn á hvernig og hverjum hún er seld.

„Aðalatriðið í þessu lögbannsmáli er að Skakkiturn er ekki Apple inc., og þeir þurfa að sýna fram á það fyrir réttinum að þeir séu að vinna þetta mál fyrir Apple, og það er ekki víst að þeir geti það,“ segir Friðjón.

Friðjón segir að hans viðskiptavinir borgi sjálfir alla skatta og gjöld af þeim vörum sem þeir kaupi gegnum Buy.is. Fyrirtæki hans sé milligönguaðili um kaup á Apple-tækjum í smásölu í Bandaríkjunum og greiði flutning á vörunni til Íslands. Endanlegur kaupandi flytji vöruna hins vegar til landsins. „Ég er búinn breyta mínu viðskiptamódeli og aðlaga það að þessum breyttu aðstæðum. Ég mun ekki breyta því óháð niðurstöðu málsins. Þetta er bara komið til að vera,“ segir Friðjón.

Hann segir að neytendur á Íslandi geti keypt vöru hvar sem þeir vilji, og út á það gangi hans barátta. „Ég hef þurft að verja mig persónulega og minn rekstur í rúmlega þrjú ár  gríðarlega gagnvart þessum aðilum. Þeir eru mjög stórir og hafa ítök víða. Það eru margar hliðar á þessu máli.“

Segir Buy.is aldrei hafa undirboðið Apple

Í tölvupósti frá Friðjóni ítrekar hann að Skakkiturn hafi ekki einkarétt til innflutnings á Apple vörum til Íslands. Skakkiturn flytji sínar vörur inn frá Evrópu.

Ennfremur segir hann að  Buy.is hafi aldrei undirboðið Apple í Bandaríkjunum.  Allar Apple vörur sem Buy.is hafi selt frá 2009 hafa verið keyptar í smásölu í Bandaríkjunum og að þóknun hafi verið greidd þjónustuaðila Buy.is.

Buy.is hafi síðan flutt vöruna til Íslands og endurselt með álagningu en samt uþb. 40-50 þúsund krónum ódýrari en epli.is og í sumum tilvikum yfir 100.000 kr ódýrari. Hann segir fullyrðingar Bjarna um undirboð ekki eiga við rök að styðjast.

Allir viðskiptavinir Buy.is hafa að hans sögn notið tveggja ára lögbundinnar ábyrgðarþjónustu, fyrr og nú.  

Buy.is LLC, nokkurs konar einkahlutafélag, er skrásett fyrirtæki í Bandaríkjunum og hefur starfsleyfi í Georgíu fylki.  Það selur sína þjónustu til neytenda á Íslandi og í öðrum löndum Evrópu.  Þjónustan gengur að sögn Friðjóns út á að útvega fólki vöru, sem venjulega er seld á of háu verði á heimamarkaði þess.  Kaupandinn flytur vöruna sjálfur inn og greiðir af henni öll lögbundin gjöld.   

Friðjón vísar ennfremur á samning Skakkaturns við Apple inc., en hluta hans má nálgast á vegg facebooksíðu Buy.is

Frétt mbl.is „Borgar birgjum og fer svo í þrot“

Frétt mbl.is Nafnabreyting til að villa um

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK