Anna Elísabet Ólafsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarrektor við Háskólann á Bifröst í stað Jóns Ólafssonar prófessors. Anna Elísabet lauk doktorsprófi í lýðheilsufræðum frá Brunel University í London árið 2012. Anna er einnig með MBA frá Háskóla Íslands og M.Sc. gráðu í næringarfræði frá University of Osló.
Hún hefur einnig víðtæka starfsreynslu bæði hérlendis og erlendis. Meðal annars var hún forstjóri Lýðheilsustöðvar 2003-2008 og frá 2008 hefur hún starfað að þróunarmálum og atvinnusköpun í Tansaníu í gegnum HUMEC sem er fyrirtæki í hennar eigu ásamt eiginmanni sínum og heimamanna. Allt síðasta ár vann Anna að rannsóknum á áhrifum þróunarhjálpar á afköst og gæði heilbrigðisþjónustunnar í samstarfi við Ifakara Health Institute sem er rannsóknamiðstöð í heilbrigðisvísindum í austur Afríku.
Jón Ólafsson mun áfram leggja stund á rannsóknir og kennslu við skólann í stöðu prófessors á Félagsvísindasviði.