„Við komumst að því að það séu vísbendingar um að slíkt verkefni sé þjóðhagslega arðsamt og hagkvæmt, en við höfum litla fótfestu, það er forsendurnar eru of veikar til að meta það.“ Þetta segir Gunnar Tryggvason, verkfræðingur og formaður ráðgjafarhóps um lagningu rafmagnssæstrengs frá Íslandi. Hann telur nauðsynlegt að heimila Landsvirkjun og Landsneti að fara í viðræður við mótaðilann til að fá nánar að vita hvert orkuverð gæti orðið og að ræða við fjárfesta um rekstrarfyrirkomulag og eignarhald á strengnum.
Í þættinum Viðskipti með Sigurði Má segir Gunnar að hæsta verðið fyrir rafmagn fengist á meginlandi Evrópu, en að það sé fljótt að breytast og í dag hækki verð mest í Bretlandi.
„Stærsti áhættuþátturinn í verkefninu er sá að þetta yrði lengsti strengur í heimi, hvort sem hann yrði til Bretlands eða eitthvað annað og því þurfum við að horfa á stystu leiðirnar,“ segir Gunnar og því sé Bretland álitlegur kostur.
Oft hefur verið talað um að lagning á svo löngum streng væri áhættusöm, en Gunnar bendir á að aðrar þjóðir séu einnig að skoða langa strengi og verði búnar að leggja strengi sem eru um 70-80% af lengd fyrirhugaðs strengs frá Íslandi. „Lengdaráhættan sem slík fer hraðminnkandi og við yrðum ekki miklir brautryðjendur í því, sem betur fer,“ segir Gunnar.