Framleiða ekki forboðna ávexti

Þórhallur Stefánsson og Magnús Leifur Sveinsson í Aldingarðinum.
Þórhallur Stefánsson og Magnús Leifur Sveinsson í Aldingarðinum. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Tveir íslenskir tónlistarmenn ákváðu nýverið að venda kvæði sínu í kross og færa sig frá hljóðfærunum og að upptökuborðinu. Þeir settu á fót nýtt hljóðver, Aldingarðinn, og bjóða upp á fjölmargar lausnir þegar kemur að hljóðvinnslu og hljóðsköpun auk þess sem boðið verður upp á tónsmíðar.

Frjósemin er þeim Magnúsi Leifi Sveinssyni og Þórhalli Stefánssyni ofarlega í huga. Þeir gerðu garðinn frægan í sitthvoru lagi með hljómsveitunum Úlpu og Lights on the Highway en eftir að leiðir þeirra lágu saman í hljóðtækninámi var ákveðið að reyna á samtarf. „Við erum að bjóða upp á notalegt umhverfi, þægilega og góða aðstöðu og svo fyrsta flokks þjónustu,“ segir Magnús. „Svo er það auðvitað frjósemin. Það er gríðarlega frjósemi hérna hjá okkur og við framleiðum ekki forboðna ávexti.“

Aldingarðurinn er í Garðabæ og höfðu þeir félagarnir mikið fyrir því að finna húsnæði sem uppfyllti allar kröfur. Leitað var í fjóra mánuði að hentugu húsnæði þar til þeir fundu það sem leitað var að, í Miðhrauni í Garðabæ. „Það var í raun ekki úr miklu að moða nema ef við myndum hella okkur út í meiriháttar framkvæmdir. Það voru alltaf einhverjir erfiðleikar sem fylgdu hverju húsnæði,“ segir Þórhallur. Þeir hafi verið með lista yfir það sem þurfti að vera í lagi og ávallt stóð eitthvað út af borðinu. „Svo duttum við inn á þetta húsnæði og erum mjög lukkulegir með það. Það þurfti ekki að breyta miklu til að gera þetta óaðfinnanlegt.“

„Við erum að búa til vél sem virkar“

Eins og áður segir lágu leiðir þeirra Magnúsar og Þórhalls saman í hljóðtækninámi þaðan sem þeir báðir útskrifuðust. „Þetta gerðist tiltölulega snemma í náminu. Það er eins og gengur, menn draga sig í hópa, og okkur gekk mjög vel að vinna saman að þeim verkefnum sem sett var fyrir,“ segir Magnús. Frá útskrift hafa þeir báðir unnið að verkefnum tengdum upptökum og hljóðtækni í sitthvoru lagi en hugmyndin að samvinnu og sameiginlegu hljóðveri bjó áfram innra með þeim. „Svo var það Þórhallur sem í janúar síðastliðnum sagði hingað og ekki lengra og sannfærði mig endanlega um að þetta væri málið. Við höfum ekki litið til baka síðan.“

Magnús og Þórhallur segja að Aldingarðurinn eigi að standast hvaða hljóðveri landsins snúning. Það séu vart verkefni sem þurfi að hafna enda allt til taks og nýjasta tækni. Þeir ætla sér að bjóða upp á upptökur, hljóðblöndun, hljóðjöfnun, talsetningu og eftirvinnslu á hljóði fyrir mynd, útvarp og hljóðbækur.

En einnig bjóða þeir upp á sínar eigin tónsmíðar, s.s. fyrir kvikmyndir, auglýsingar, leikhús eða aðra miðla. Þeir hafa undanfarið verið að stilla saman strengi og semja efni og segja þá vinnu hafa gengið vonum framar. „Við erum að búa til vél sem virkar,“ segir Þórhallur. Og Magnús bætir við: „Þetta er ört stækkandi markaður. Inn á hann hafa meðal annars verið að bætast tölvuleikir og íslenskar teiknimyndir þannig að það eru mörg tækifæri fyrir hendi.“

Ennfremur hyggjast þeir bjóða upp á þann möguleika að menn leigi hljóðverið án þeirra starfskrafta. Þá benda þeir á að fyrir hendi sé úrval fjölbreyttra hljóðfæra sem viðskiptavinir geta nýtt sér, en það er ekki gefið mál í hljóðverum landsins.
Þeir segjast hins vegar átta sig á því að verkefnin falla ekki bara í hendurnar á þeim og ætla því að vera duglegir að kynna sig á næstunni. „Við verðum á ferðinni og heimsækjum vinnustaði í kringum þetta, þannig að menn mega búast við okkur. Svo erum við auðvitað alltaf með heitt á könnunni og hvetjum fólk til að koma við, skoða aðstæður og ræða málin.“

Vefsvæði Aldingarðsins

Aldingarðurinn á Facebook

Aldingarðurinn. Hljóðver Magnúsar Leifs Sveinssonar og Þórhalls Stefánssonar
Aldingarðurinn. Hljóðver Magnúsar Leifs Sveinssonar og Þórhalls Stefánssonar Ljósmynd /Einar Magnús Magnússon
Aldingarðurinn. Hljóðver Magnúsar Leifs Sveinssonar og Þórhalls Stefánssonar.
Aldingarðurinn. Hljóðver Magnúsar Leifs Sveinssonar og Þórhalls Stefánssonar. Ljósmynd/Einar Magnús Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK