Hótelið 80% af fjárfestingaáætlun

Fjárfesting vegna hótels við Höfðatorg nemur um 3% af heildarfjárfestingum …
Fjárfesting vegna hótels við Höfðatorg nemur um 3% af heildarfjárfestingum hérlendis á einu ári. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fjárfesting vegna nýs hótels á Höfðatorgi er áætluð um 8 milljarðar. Það jafngildir um 80% af sérstakri fjárfestingaáætlun fyrri ríkisstjórnar. Er það um tvöföld upphæð sem áætlunin leggur í græna hagkerfið á næstu þremur árum og þreföld upphæð sem fer í uppbyggingu á ferðamannastöðum á sama tíma.

Sérstaka fjárfestingaáætlunin sem var kynnt fyrir ári nemur um 10,3 milljörðum á þessu ári, en þar er meðal annars gert ráð fyrir útgjöldum vegna fangelsis á Hólmsheiði, Húss íslenskra fræða, uppbyggingar á ferðamannastöðum og útgjöldum vegna Landeyjahafnar og Herjólfs.

Hafsteinn Hauksson, sérfræðingur hjá greiningardeild Arion banka, segir í samtali við mbl.is að fjármunamyndun hafi verið um 245 milljarðar hér á landi á síðasta ári. 8 milljarða fjárfesting í þessu hóteli sé því rúmlega 3% af heildarfjárfestingum síðasta árs.

„Þetta mun ekki gjörbreyta myndinni, en er eitt af þeim verkefnum sem þurfa að fara í gang til að viðhalda fjármagnsstofninum og láta hann vaxa.“ Hann bendir á að á síðustu árum hafi fjárfestingar verið innan við 15% af landsframleiðslu og þannig hafi ný fjárfesting ekki náð að halda í við afskriftir og því hafi gengið á fjármagnsstofninn. Þetta gangi til skamms tíma, en þegar mörg ár séu liðin frá niðursveiflu, þá sé nauðsynlegt að fjárfesting komist á skrið aftur svo fjármagnsstofninn vaxi á ný.

Þá bendir Hafsteinn á að af verkefnum sem þessum séu alltaf einhver margfeldisáhrif. Það eigi sérstaklega við í lægð eins og nú er á Íslandi, þegar vannýtt framleiðslugeta er til staðar og ruðningsáhrif nýrra fjárfestinga takmörkuð. Þannig vinni þetta á atvinnuleysi og komi fjármagni í vinnu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK